Hrafn Jökuls­son lýsir því í helgar­blaði Frétta­blaðsins hvernig lög­regla hand­tók hann þann 31. októ­ber árið 2020 þar sem hann var staddur á Brú í Hrúta­firði og átti af­mæli daginn eftir.

Hrafn ræðir málin ítar­lega í helgar­blaði Frétta­blaðsins, veikindi sín og bar­áttuna gegn ís­lenska ríkinu sem Hrafn hefur stefnt fyrir harka­lega frelsis­sviptingu fyrir tveimur árum og lækna­mis­tök.

Hrafn lýsir því hvernig hann hafi staðið úti fyrir þar sem hann ætlaði sér að kalla á hundinn sinn Mosa.

„En þar sem ég stóð þarna og ætlaði að kalla á hann Mosa minn byrjuðu allt í einu blá og rauð ljós að blikka í myrkrinu. Á þeim var ekkert form og það fyrsta sem þessum fjöru­lalla datt í hug var: En gaman, er þetta geim­skip?

En þá heyrðist rödd úr myrkrinu sem kallaði: „Vopnuð lög­regla! Hrafn, upp með hendur!“ Þá hugsaði ég og ég man hverja nanó­sekúndu eins og ég man líf mitt mestan part: Ekki geim­skip, vopnuð ríkis­lög­regla?? Þá komu, eins og í Andrés­blöðunum tvö spurninga­merki. Og síðan setningin á ensku, ein­hverra hluta vegna: „I hit the jack­pot.“

Hrafn segist að sjálf­sögðu hafa farið eftir fyrir­mælum lög­reglu og lyft höndum á­hyggju­laus til himins. „Mér er skipað að ganga til þeirra með upp­réttar hendur inn í myrkrið. Ég hlýði því og geng inn í myrkrið. Síðan skipar hrædd rödd mér að stöðva og svo að krjúpa. Svo koma tveir hræddir menn í myrkrinu, skella mér í mölina og ég er hand­járnaður eftir öllum víkinganna kúnstarinnar reglum.“

Helgar­við­tal Frétta­blaðsins við Hrafn í heild sinni.