Vopna­hlé tók gildi milli Ísraels­hers og víga­hópsins Íslamsks jí­hads í Palestínu (PIJ) á sunnu­dags­kvöld. Meiri­háttar átök höfðu hafist á Gasa­ströndinni á föstu­daginn þegar Ísraels­her gerði loft­á­rásir á byggingu í mið­borg Gasa. Á­rásin var hluti af svo­kallaðri „dag­renningar­að­gerð“ sem gerð var til að ráða niður­lögum Taysirs al-Jabari, liðs­foringja í hernaðar­væng PIJ. Auk hans létust að minnsta kosti átta í á­rásunum, þar á meðal fimm ára gömul stúlka.

Ísraelar héldu á­fram á­rásum á skot­mörk yfir helgina og Palestínu­menn svöruðu fyrir sig með eld­flauga­á­rásum á ísraelskar borgir. Á sunnu­dags­kvöld gaf heil­brigðis­ráðu­neyti Gasa út að alls hefðu 44 mann­eskjur látist í á­tökunum, þar á meðal 15 börn. Þá hafi rúm­lega 300 manns slasast.

Ekki hefur verið til­kynnt um að neinir Ísraelar hafi látist í gagn­á­rásunum. Ísraelski herinn segist hafa hæft 170 skot­mörk tengd PIJ í að­gerðinni, drepið nokkra hátt­setta leið­toga í sam­tökunum og eytt hluta af vopna­búri þeirra.

Tals­maður hersins, fylkis­hers­höfðinginn Ran Kochav, sagðist hafa fengið upp­lýsingar um alls 35 dauðs­föll í Palestínu. Þar af hefðu 11 ó­breyttir borgarar dáið í á­rásum Ísraels­hers. Hins vegar stað­hæfði Kochav að fleiri palestínskir borgarar hefðu látist í gagn­á­rásum Palestínu­manna, alls 15. Dauðs­föllin mætti rekja til eld­flauga sem PIJ hefði skotið en hefðu hrapað inni á Gasa­ströndinni án þess að drífa til Ísraels.

Ísraelar og Palestínu­menn þökkuðu Egyptum fyrir milli­göngu þeirra við að semja um vopna­hléið.