Vopnaðir lögreglu- og sérsveitarmenn voru kallaðir að fangelsinu á Hólmsheiði í gær vegna ungs fanga sem heimildir blaðsins herma að haft hafi í hótunum við fangavörð. Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri Ríkislögreglustjóra, staðfestir að sérsveitin hafi verið kölluð að fangelsinu og segir beiðni þar um hafa komið frá Fangelsismálastofnun.

Fréttablaðið hefur ekki fengið upplýsingar um athafnir sveitarinnar innan fangelsinsins, hvorki gagnvart umræddum fanga eða öðrum, en Halldór Valur Pálsson, forstöðumaður fangelsisins, segist ekki geta tjáð sig efnislega um atvik málsins. Hann segir þó að samband fangelsisins og lögreglu sé gott. Fangelsið eigi það til að óska eftir aðstoð lögreglu vegna ýmiskonar mála og komi hún þá til hjálpar.

Þá segir Halldór að þegar Fangelsismálastofnun óski eftir aðstoð lögreglu sé það lögreglunnar að ákvarða hvernig brugðist sé við útkallinu, og gefur þar með til kynna að Fangelsismálastofnun hefði ekki óskað sérstaklega eftir sérsveitinni.

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, telur að mál sem þetta geti haf slæm áhrif á fanga.
Fréttablaðið/Anton Brink

Þungvopnuð sveit hjálpi ekki til

„Við skiljum ef það er fámennt að þá sé hringt í lögreglu, en það þarf alltaf að vera meðalhóf í svona málum. Þungvopnuð lögregla er ekki meðalhóf.“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, um málið í samtali við Fréttablaðið, en hann telur að sennilega hafi ekki þurft á þungvopnuðum lögreglumönnum að halda í umrædda aðgerð.

Hann telur að mál sem þetta geti haft slæm sálræn áhrif á fangana, og að þungvopnuð sérsveit hjálpi ekki til við endurhæfingu fanganna.

„Þetta getur haft verulega slæm áhrif, bæði á fangana, sem og aðstandendur þeirra, og samfélagið allt seinna meir.“ segir Guðmundur sem segist ætla að ræða málið við forstjóra Fangelsismálastofnunar.