Vopnað rán var framið á skyndibitastaðnum KFC í Sundagörðum á áttunda tímanum í kvöld. Grímuklæddur maður valsaði inn á staðinn vopnaður tveimur eldhúshnífum og ógnaði starfsfólki.
Fjórir lögreglubílar voru sendir á vettvang til að bregðast við ráninu en lögreglan vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu í samtali við Fréttablaðið.
Mundaði tvo eldhúshnífa
Starfsmaður KFC ræddi við Fréttablaðið og sagðist vera viss um að lögreglan hafi náð manninum sem var á ferðinni fyrir utan staðinn. Starfsmaðurinn lýsti því að hann hafi verið að störfum þegar hann heyrði hátt öskur á staðnum.
Þegar hann athugaði hvað var á seyði sá hann grímuklæddan mann ógna starfsstúlku sem var við kassann. „Hann ógnaði vinkonu minni með tveimur hnífum.“ Hann segir stúlkuna hafa verið í miklu áfalli eftir atvikið en hún var flutt upp á lögreglustöð í skýrslutöku.
„Maðurinn horfði beint á mig þegar ég kíkti fram og ég hljóp í burtu,“ sagði starfsmaðurinn sem hörfaði í eldhúsið þegar atvikið átti sér stað. Þar varð hann sér úti um eldhúsmoppu sem hann hugðist verja sig með ef til átaka kæmi.
Starfsmaður KFC segist ekki vita hvað gekk manninum til en segir stúlkuna, sem flutt var í burtu með lögreglunni, hafa opnað peningakassann þegar maðurinn ógnaði henni. „Hún er alveg í rústi eftir þetta. Hún sagði að maðurinn hafi staðið alveg mjög nálægt henni með hnífinn.“

Starfsfólk enn að störfum
Vitni að atvikinu sögðust hafa séð hluta starfsfólksins hlaupa út og stóð hópur viðskiptavina fyrir utan þegar lögreglu bar að garði. Að sögn eins vitnis voru bæði viðskiptavinir og starfsfólk í uppnámi eftir atvikið og ljóst að einhverjum hafði brugðið töluvert við uppákomuna.
Skyndibitastaðurinn er ennþá opinn og er skelkað starfsfólkið, að stúlkunni undanskilinni, enn að störfum eftir viðburði kvöldsins. „Ég hef aldrei upplifað neitt svona áður, þetta kom rosalega á óvart. Þetta var hræðilegt,“ viðurkenndi starfsmaðurinn sem var þó að eigin sögn í ágætu ástandi.