Vopnað rán var framið á skyndi­bita­staðnum KFC í Sunda­görðum á áttunda tímanum í kvöld. Grímu­klæddur maður val­saði inn á staðinn vopnaður tveimur eld­hús­hnífum og ógnaði starfs­fólki.

Fjórir lög­reglu­bílar voru sendir á vett­vang til að bregðast við ráninu en lög­reglan vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu í samtali við Fréttablaðið.

Mundaði tvo eldhúshnífa

Starfs­maður KFC ræddi við Fréttablaðið og sagðist vera viss um að lög­reglan hafi náð manninum sem var á ferðinni fyrir utan staðinn. Starfsmaðurinn lýsti því að hann hafi verið að störfum þegar hann heyrði hátt öskur á staðnum.

Þegar hann at­hugaði hvað var á seyði sá hann grímu­klæddan mann ógna starfsstúlku sem var við kassann. „Hann ógnaði vin­konu minni með tveimur hnífum.“ Hann segir stúlkuna hafa verið í miklu á­falli eftir at­vikið en hún var flutt upp á lög­reglu­stöð í skýrslu­töku.

„Maðurinn horfði beint á mig þegar ég kíkti fram og ég hljóp í burtu,“ sagði starfs­maðurinn sem hörfaði í eld­húsið þegar at­vikið átti sér stað. Þar varð hann sér úti um eld­húsmoppu sem hann hugðist verja sig með ef til á­taka kæmi.

Starfs­maður KFC segist ekki vita hvað gekk manninum til en segir stúlkuna, sem flutt var í burtu með lög­reglunni, hafa opnað peninga­kassann þegar maðurinn ógnaði henni. „Hún er alveg í rústi eftir þetta. Hún sagði að maðurinn hafi staðið alveg mjög nálægt henni með hnífinn.“

Lögreglan náði manninum fyrir utan staðinn.
Mynd/Aðsend

Starfsfólk enn að störfum

Vitni að at­vikinu sögðust hafa séð hluta starfs­fólksins hlaupa út og stóð hópur við­skipta­vina fyrir utan þegar lög­reglu bar að garði. Að sögn eins vitnis voru bæði við­skipta­vinir og starfs­fólk í upp­námi eftir at­vikið og ljóst að ein­hverjum hafði brugðið tölu­vert við upp­á­komuna.

Skyndi­bita­staðurinn er enn­þá opinn og er skelkað starfs­fólkið, að stúlkunni undanskilinni, enn að störfum eftir við­burði kvöldsins. „Ég hef aldrei upp­lifað neitt svona áður, þetta kom rosa­lega á ó­vart. Þetta var hræði­legt,“ viður­kenndi starfs­maðurinn sem var þó að eigin sögn í á­gætu á­standi.