Nýtt sam­starfs­verk­efni sem á að nýtast í bar­áttunni gegn vændi var kynnt í dag. Verk­efnið kallast Vopn gegn vændi og kyn­lífsman­sali og er samstarfsverkfni Reykja­víkur­borgar, Lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu og Samtaka ferðaþjónustunnar.

Vopn gegn vændi byggir á fræðslu­efni fyrir hótel og gisti­staði um vændi og kyn­lífsman­sal. Mark­miðið með gerð efnisins er að starfs­fólk innan hótela og gisti­staða þekki ein­kenni vændis eða kyn­lífsmansals og til­kynni það til lög­reglu ef grunur leikur á að slíkt fari fram á hótelinu. Fræðslu­efnið var unnið af nemum í MPM náminu við Há­skólann í Reykja­vík í sam­vinnu við Lög­regluna á höfuð­borgar­svæðinu, Reykja­víkur­borg og Sam­tök ferða­þjónustunnar.

Að verk­efninu unnu þær Stella Sif Jóns­dóttir, Ísól Fann­ey Ómars­dóttir, Þór­gunnur Jóhanns­dóttir, Ágústa Ýr Sveinsdóttir, Ingunn Þor­varðar­dóttir, Bryn­dís ósk Björns­dóttir sem eru allar nemendur við Háskólann í Reykjavík. Verk­efnið er hluti af á­­fanga sem kallast „Raun­hæft verk­efni“ og átti verk­efnið að snúa að sam­­fé­laginu á ein­hvern hátt. Þær segja frá því að ein í hópnum hafi haft veður af því að Of­beldis­varnar­nefnd Reykja­víkur­borgar væri að vinna að verk­efninu með Sam­tökum ferða­þjónustunnar. Þær hafi í kjöl­farið fengið fund með þeim og í fram­haldi af því hafi þær tekið að sér að búa til fræðslu­efnið.

60 einstaklingar í vændi eða mansali á hverjum tíma

Í rann­sókn þeirra komust þær að því að á hverjum tíma­punkti megi gera ráð fyrir því að hér á landi séu um 60 ein­staklingar í vændi eða kyn­lífsman­sali og að þrír af hverjum fjórum séu er­lendir ríkis­borgarar. Það séu oftast ungar konur eða ung­menni frá ríkjum í Evrópu. Konurnar komi frá lögnum þar sem þær hafa búið við bágar að­stæður. Þær segja að þær eigi oftast erfitt með að komast út úr að­stæðunum vegna þess að þeim hefur jafn­vel verið hótað eða þær hnepptar í skulda­á­lög.

„Man­sal er verslun með fólk og er auð­vitað mjög al­var­legur glæpur,“ segir Ísól.

Hún greinir frá því að konurnar líti oftast ekki á sig sem þol­endur eða fórnar­lömb og því sé oft erfitt að veita þeim að­stoð. Hún segir að það sé engin ein staðal­í­mynd af kaup­endum en meðal þeirra séu margar rang­hug­myndir, eins og að þeir vilji frekar ungar konur því þeir telji að þær séu ó­lík­legt til að vera smitaðar af kyn­sjúk­dómum og að margir þeirra haldi að vegna þess að þeir greiði fyrir kyn­lífið eigi þeir, til dæmis, rétt á að stunda ó­varið kyn­líf eða beita þær of­beldi.

Þær segja að þegar um er að ræða vændi á Ís­landi, það er án allrar að­komu þriðja aðila, þá sé yfir­leitt um að ræða fólk sem er í mikilli neyð eða neyslu. Þær segja að þótt að sumum þeirra finnist upp­lifunin oft vald­eflandi til að byrja með þá aukist van­líðan eftir því sem líður á því því oft sé brotið á þeim.

„Í vændi eru engir sigur­vegarar. Þetta eru ekki sögur þar sem fólk rís upp. Það sem við lásum kom fram að þetta fylgir þol­endum alla ævi,“ segir Ísól.

90 prósent kaupenda íslenskir karlmenn

Spurðar hvort eitt­hvað hafi komið þeim á ó­vart við vinnslu verk­efnisins eru þær allar sam­mála um að mjög margt hafi komið þeim á ó­vart.

„Um­fangið, hversu margir eru í vændi, hverjir kaupa og hversu margir það eru. Yfir 90 prósent kaup­enda eru ís­lenskir karl­menn sem kannski kom á ó­vart því um­ræðan hefur að ein­hverju leyti snúist um að aukningu í vændi eða man­sali megi rekja til aukins ferða­manna­straumar. En það eru ekki ferða­mennirnir sem eru að kaupa, það kemur beint frá lög­reglu,“ segir Ingunn.

Spurðar út í nú­verandi verk­lag segja þær að það hafi helst komið þeim á ó­vart ólík gildi og við­horf til vændis víða í sam­fé­laginu.

„Það eru þessar mýtur sem enn lifa um að hamingju­sama hóran sé til. Við höfum þó ekki enn fundið hana,“ segir Þór­gunnur og Ísól bætir við: „Eftir því sem maður les meira þá sann­færist maður enn frekar um að hún sé ekki til.“

Þá hafi þær orðið varar við mikla fötlunar­for­dóma um að það væri allt í lagi að selja fötluðum kyn­líf því þau muni mögu­lega aldrei stunda eðli­legt kyn­líf. Annað sem kom þeim á ó­vart var hversu lítið væri búið að taka fyrir vændi í réttar­kerfinu, sér­stak­lega miðað við að hér hafi verið tekin upp sænska leiðin árið 2009 þar sem kaup, en ekki sala, á vændi eru gerð ó­lög­leg.

„Þetta eru einu glæpirnir þar sem að fólk er ekki nafn­greint þannig að fælingar­mátturinn er enginn. Það eru sett ein­hver lög sem munu aldrei virka með þeim hætti sem að lög­gjafinn ætlaði“ segir Ísól.

Mikilvægt að koma fræðslu inn í vinnustaðamenninguna

Spurðar um viðbrögð við fræðsluefninu og hvort þær telji að starfsfólki muni finnast erfitt að til­kynna vændi eða man­sal telja þær að það sé mikil­vægast að koma þessu inn í menningu á vinnu­staðnum.

„Það er mikil­vægt að þetta sé rætt, því þetta er ekki tabú. Þetta gerist og fólk verður bara að vera vakandi fyrir þessu,“ segir Ísól og Þór­gunnur bætir við: „Verk­ferilinn er byggður þannig upp að þegar grunur vaknar þá ræðir fólk saman á vaktinni sem biður svo kannski fólk á næstu vakt að skoða líka og ræða það. Svo væri það mögu­lega stjórnandi sem tekur á­kvörðun um það hvort það sé til­kynnt. Það sé því ekki á á­byrgð starfs­fólks á gólfinu að gera það heldur sé það stjórnandi sem ber á­byrgð. Það getur þá dregið úr hræðslu við að til­kynna.“

Byggt á því segja þær al­gert lykil­at­riði fyrir inn­leiðingu verk­efnisins að ná til stjórn­enda fyrir­tækja og að þeir taki verk­efnið að sér.

Hægt verður að prenta út veggspjöld til að hengja á salerni og skilti til að setja á borð.

Fræðsluefnið verði öllum aðgengilegt

Fram kom á fundinum fyrr í dag að fræðslu­efnið muni allt koma til með að vera veitinga­stöðum, hótelum og gisti­stöðum að­gengi­legt á heima­síðu Sam­taka ferða­þjónustunnar. Inni í þeim pakka eru glærur sem fylgja fyrir­lestri, mynd­bönd og svo plaköt og skilti sem hægt verður að setja á borð og hengja á salerni. Ýmist geta hótelin þá á­kveðið að fræða sjálf sitt starfs­fólk, eða fengið inn fyrir­lesara á vegum SAF sem kynnir fræðslu­efnið fyrir starfs­fólki.

Í fræðslu­efninu er að finna mynd­bönd sem fram­leidd voru af sænsku lög­reglunni og evrópsku sam­tökunum Real Stars. Í mynd­böndunum má sjá ó­líkar að­stæður sem geta komið upp og eiga að kenna starfs­fólki að bera kennsl á það hvort um sé að ræða kaup­endur eða selj­endur vændis. Ein­kenni sem þær segja að starfs­fólk geti fylgst með er, til dæmis, hvort fólk haldi sig mikil til hlés við inn­ritun, hvort fólk reyni að sleppa því að sýna per­sónu­skil­ríki og greiði með seðlum. Í einu myndbandinu fer lög­reglu­maður vændis­teymis sænsku lög­reglunnar yfir það hverju starfs­fólk eigi að leita eftir í her­bergi sem geti stað­fest grun um að þar hafi farið fram kyn­lífsman­sal og vændi.

Lögreglumaðurinn segir að al­gengt sé að finna smokka, lista með fjölda kúnna og greiðslur fyrir sem konurnar haldi fyrir mellu­dólginn, dóp­pokar, blóðug bréf, margir far­símar og vopn. Þá sé ekki ó­al­gengt að finna ýmis kyn­lífs­leik­föng og sleipi­efni.

Ingunn segir að stundum sé hægt að bera kennsl á það hvort sé verið að selja vændi á hóteli. Það sé þá lík­legt að hótel­gesturinn sjálfur komi sjaldan út en taki á móti mörgum gestum, vilji ekki þrif á her­berginu en vilji samt sem áður oft fá ný rúm­föt og snyrti­vörur sem fylgi her­berginu.

Þær segja að þótt að það sé oft erfitt að vera viss um að vændi eða man­sal eigi sér stað þá sé lykil­at­riði að þekkja ein­kennin og að hótel séu með skýra stefnu, sem sé kynnt fyrir starfs­fólki. Þær segja að upp­lýsinga­flæði á milli starfs­fólks geti líka skipt höfuð­máli, sem dæmi að þegar vakta­skipti eigi sér stað sé farið yfir og látið vita ef ein­hver grunur er til staðar.

Verkferill lögreglunnar.

Mikilvægt að muna að þolendur eru ekki að brjóta lög

Hjá Lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu hefur nú verið hannaður nýr verk­ferill varðandi þessi mál sem þær segja að sé mikil bragar­bót. Þar metur stjórnandi hótels hvort grunur sé stað­festur eða hvort þurfi að skoða málið nánar. Sé grunur stað­festur er hringt í lög­reglu og hún kemur á vett­vang. Ef þarf að skoða málið nánar er samt sem áður send á­bending til lög­reglu, svo þau séu með­vituð um stöðu mála.

Þær taka fram að lokum að það sé veru­lega mikil­vægt að allir viti að þol­endur eru aldrei að brjóta lög og að því sé einnig miðlað til starfs­fólks hvert þau geti vísað þeim. Þær vonast til þess að með verk­efninu verði hægt að fræða starfs­fólk og koma í veg fyrir vændi.

„Við vonumst til þess að verk­efnið komi til með að hafa á­hrif og þetta nýtist vel inni á hótelunum. Að það verði aukin þekking og sam­hliða því er hægt að upp­ræta þetta að ein­hverju leyti. Þannig er hægt að eyða mýtum. Þetta er í það minnsta ein leiðin þangað. Ef þetta verður nýtt á mörgum hótelum fá mjög margir þessar upp­lýsingar og það kemur til að hafa ein­hver marg­földunar­á­hrif,“ segir Ingunn að lokum.