Verkefni björgunarsveitanna hafa verið margvísleg það sem af er kvöldi. Samkvæmt upplýsingafulltrúa Landsbjargar hefur verið rólegt á landsvísu en þak losnaði meðal annars á Vík. Veðurstofa hefur gefið út appelsínugula og gula viðvörun vegna veðurs um nær allt land og búist er við austan og norðaustan roki eða ofsaveðri, meðal annars á Suðurlandi. 

Björgunarsveitir hafa meðal annars séð um að loka vegum og munu sinna því verkefni áfram í nótt. Vegurinn milli Hvolsvallar og Víkur er lokaður vegna veðurs og reiknað er með að vegurinn opni aftur þegar líður á morgun. Eins er búið að loka veginum milli Lómagnúps og Jökulsárlóns. Reiknað er með að þar verði hægt að opna aftur um klukkan sjö í fyrramálið.

„Það er í raun og veru búið að vera frekar rólegt svona á landsvísu. Það voru útköll í Vestmannaeyjum síðdegis og stök verk á Vík og á Kjalarnesi á sjötta og sjöunda tímanum í kvöld,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við Fréttablaðið. 

Segir hann að björgunarsveitir hafi meðal annars sinnt verkefnum á Vík þar sem þak var farið að losna og sama verkefni á Kjalarnesi. „Eftir það hefur nú verið frekar rólegt. Björgunarsveitirnar sinna þessum lokunum eins lengi og krefur. Staðan verður metin í nótt, en björgunarsveitir eru klárar eins og alltaf og við vonum bara að nóttin fari vel og fólk fylgist með skilaboðum frá lögreglu og Vegagerðinni.“