Hildur Björns­dóttir, odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­vík, segir vont að sjá að ráðningar­bann Reykja­víkur­borgar nái einnig til leik­skóla í borginni. Í fjár­hags­á­ætlun borgarinnar kemur fram að starfs­mönnum í leik­skóla muni fækka um 75 á næsta ári.

„Mér finnst í fyrsta lagi svo­lítið merki­legt að sjá að við Sjálf­stæðis­menn lögðum fram sams­konar ráðninga­bann við fjár­hags­á­ætlun á síðasta kjör­tíma­bili og ég veit ekki hvert meiri­hluta­flokkarnir ætluðu, þeim þótti þetta slíkur dóna­skapur þannig að mér finnst svo­lítið merki­legt að þau leggi á slíkt bann sjálf,“ segir Hildur í sam­tali við Frétta­blaðið.

Út­færsla meiri­hlutans hafi verið ólík þeirri sem Sjálf­stæðis­flokkurinn hafi lagt fram en hjá þeim voru leik­skólarnir undan­skildir slíku banni.

„Við litum svo á að það ætti að setja ráðningar­bann á yfir­bygginguna hjá Reykja­víkur­borg en ekki grunn­þjónustuna. En núna er það svo að leik­skóla­stjórar hjá Reykja­víkur­borg hafa fengið bréf frá borginni þar sem óskað er eftir því að þeir haldi að sér í manna­ráðningum,“ segir Hildur.

Sam­kvæmt fjár­hags­á­ætluninni verður starfs­mönnum á leik­skóla fækkað um 75 á næsta ári.

„Það skýtur auð­vitað mjög skökku við nú þegar við erum að horfa á mörg hundruð börn á bið­listum eftir leik­skóla­plássi ár eftir ár. Lof­orð þessa meiri­hluta um að leysa þann vanda, þau ná ekki fram að ganga með fækkun starfs­fólks,“ segir hún.

Yfir­sýn, yfir­bygging og hug­leysi sé vandinn

Hildur segir yfir­byggingu borgarinnar vera rót vandans. „Hún stækkar ár frá ári og mér finnst í­skyggi­legt að horfa á 25 prósenta starfs­manna­fjölgun á fimm árum, sér­stak­lega ef við berum saman í­búa­þróun en í­búum hefur bara fjölgað um 10 prósent á sama tíma.“

„Þannig að ég held að vandinn liggi í lítilli yfir­sýn, allt of mikilli yfir­byggingu og hug­leysi, að þora ekki að takast á við vandann og taka erfiðar og sárs­auka­fullar á­kvarðanir sem eru löngu tíma­bærar,“ segir Hildur.

Óttast að hallinn verði meiri

Til­kynnt var í gær að halli í rekstri borgarinnar á næsta ári yrði 6 milljarðar. Út­göngu­spár gera ráð fyrir því að hallinn á þessu ári verði rúm­lega 15 milljarðar. Hildur segir það valda á­hyggjum.

„Þetta eru gríðar­lega háar fjár­hæðir og við höfum miklar á­hyggjur af stöðunni. Við sjáum 15,3 milljarða króna halla fyrir árið 2022 og mér finnst nauð­syn­legt að benda á að þetta er næstum því sex­faldur halli miðað við það sem á­ætlun gerði ráð fyrir, fyrir þetta ár.“

„Við lýsum yfir gríðar­legum á­hyggjum af stöðunni. Við sjáum líka að skuldir halda á­fram að aukast, þær eru að aukast um 35 milljarða núna á milli ára og við höfum sjaldan séð aðra eins aukningu á milli ára,“ segir Hildur.