„Svarbréf borgarstjóra er dagsett 4. október, en þar eru því miður ekki veitt nein svör við þeim spurningum sem settar hafa verið fram í áðurnefndum bréfum,“ segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna, en henni barst loks svarbréf frá Degi B. Eggertssyni borgarstjóra um skýringar á gjaldskrárhækkunum Strætó bs. í tengslum við kosningaloforð um gjaldfrjálsar strætósamgöngur fyrir öll börn í Reykjavík.

Salvör sendi Strætó bréf 3. desember þar sem óskað var skýringa vegna nýrrar gjaldskrár, en samkvæmt henni hækkaði gjald fyrir árskort ungmenna um 60 prósent á sama tíma og gjöld fyrir fullorðna voru lækkuð.

Hún fylgdi því eftir með því að senda bréf til Dags í janúar. Hún rak á eftir svörum í september og svaraði Dagur henni þann fjórða október en veitti ekki fullnægjandi svör, að mati Salvarar.