Mikil ólga er nú í Svíþjóð vegna kynningar á skilmálum samnings sem gerður hefur verið við Tyrkland til þess að fá Tyrki til þess að samþykkja aðildarumsókn Svía að Atlantshafsbandalaginu.

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdoğan, hafði hótað að beita neitunarvaldi sínu gegn fyrirhugaðri aðild Svía og Finna að NATO vegna óánægju sinnar við kúrdneskar þjóðernishreyfingar sem Tyrkir skilgreina sem hryðjuverkasamtök, sér í lagi Verkalýðsflokk Kúrda (PKK). Í gær var hins vegar tilkynnt að komist hefði verið að samkomulagi og að Tyrkir myndu ekki standa í vegi Norðurlandanna tveggja.

Samkvæmt skilmálum sem Svíar og Finnar hafa nú gengið að segjast löndin muni skilgreina PKK sem hryðjuverkasamtök og taka til greina framsalsbeiðnir Tyrkja um grunaða hryðjuverkamenn á sænskri og finnskri grundu. Þá verði vopnasölubanni til Tyrkja aflétt og strangari hryðjuverkalöggjöf komið á í báðum löndunum.

Lenya Rún Taha Karim, varaþingmaður Pírata, sem er af kúrdneskum ættum, er allt annað en ánægð með þessa þróun mála. Í færslu á Twitter-síðu sinni sagðist hún sorgmædd og vonsvikin yfir því að nárannaríki Íslands væru að lúffa fyrir skipunum einræðisherra um Kúrda til að komast inn í hernaðarbandalag. „Ég er hundleið á því að sjá hvernig Kúrdar eru seldir og sviknir,“ skrifaði hún.

„Takk fyrir að sigra ISIS, hér eru verðlaunin ykkar, hafið það gott á meðan þið verðið fyrir þjóðarmorði <3,“ skrifaði Lenya í annarri færslu. Þjóðvarnarsveitir Kúrda (YPG) voru fyrirferðamestar meðal þeirra hernaðarhreyfinga sem sigruðu íslamska ríkið í norðurhluta Sýrlands á árunum 2017 til 2019. Tyrkir líta hins vegar á YPG sem hernaðarvæng PKK og hafa því gert ítrekaðar árásir á yfirráðasvæði þeirra í norðurhluta Sýrlands.

„Ég myndi segja að [Svíar og Finnar] væru með sterkari stefnu þegar kemur að mannréttindamálum en við á Íslandi,“ sagði Lenya við Fréttablaðið. „Þetta er stefna sem þau hafa státað sig af og verið rosalega stolt af. En núna þegar þeirra hagsmunir eru undir og þetta snýst um aðild þeirra að hernaðarbandalagi eru þau að gefa afslátt af sínum prinsippum og sínum mannréttindastefnum með því að henda Kúrdum undir rútuna enn og aftur.“

Lenya segist ekki hafa séð nein nöfn þeirra sem á að framselja til Tyrklands birt. „En þetta er líka skelfileg þróun hvað varðar fordæmi til frambúðar. Ef Tyrkland kemst upp með þessar kröfur að þessu sinni, hvernig verður þetta fyrir önnur lönd sem vilja ganga í bandalagið seinna meir? Þetta þarf heldur ekki að snúast bara um framsal Kúrda heldur líka varðandi stefnu Svíþjóðar þegar kemur að afvopnunarmálum og vopnasölubanni. Nú liggur fyrir að þeir hafa gefið afslátt af þessari stefnu og sínum kjarnagildum í viðræðum við Tyrkland, sem er ömurleg þróun.“

Lenya segist ekki ætlast til þess að Kúrdar fái einhver sérstök verðlaun fyrir hlutverk sitt í baráttunni gegn íslamska ríkinu en segist þó þykja framkoma Vesturlanda í þeirra garð dapurleg. „Ég þarf ekki að rifja upp hvað Bandaríkin og Tyrkland gerðu við Kúrda í Rojava árið 2019. Ég held að það fallega hefði verið að ofsækja þau ekki meir og gefa ekki undir kröfur Tyrkja þegar kemur að mannréttindabrotum.“

Þá setur Lenya spurningarmerki við viðbrögð Íslendinga við kröfum Tyrkja. „Ég held að Ísland hafi ekkert verið að taka neina sterka afstöðu gegn kröfum Tyrkja í gær, og heldur ekki á þingi. Ég var á þingi í fyrstu umræðu og ég var sú eina sem nefndi Kúrda. Í annarri umræðu var Andrés Ingi sá eini.“

Alþingi hefur þegar lagt blessun sína við inngöngu Svíþjóðar og Finnlands í NATO og hefur því ekki meira um ferlið að segja. „Auðvitað eigum við að styðja þjóðir í að taka sjálfstæðar ákvarðanir um sín utanríkismál. En við verðum líka að standa vörð um mannréttindi og okkar lýðræðislegu gildi, sem við hefðum átt að gera í gær og líka þegar þetta var rætt á þinginu.“