Spáð er vonskuveðri hér á landi á fimmtudag en þá er væntanleg upp að landinu afar kröpp lægð. Fjallað er um þetta á veðurvefnum Blika.is sem veðurfræðingurinn Einar Sveinbjörnsson heldur úti.
„Það eru sennilega fáir aðrir en veðurfræðingar og mestu veðuráhugamenn að hugsa um óveður á góðviðrisdegi sem þessum. En útlitið er annað,“ segir í umfjölluninni.
Bent er á það að yfir suðurríkjum Bandaríkjanna sé núna lægð sem veldur miklu vetrarveðri á austurströndinni í dag. Lægðin haldi svo áfram upp með ströndinni og suður fyrir Nýfundnaland. Þar mætir heit lægðin mjög köldu lofti og dýpkar hratt á miðvikudag.
„Á fimmtudagsmorgun er lægðarmiðjunni svo spáð vestur af Faxaflóa. Standist spárnar þá verður þrýstingur í lægðarmiðju í kringum 925 hPa. Svo djúpar lægðir eru afar fátíðar. Ef frá eru taldir fellibyljir, þar sem þrýstingur getur farið niður fyrir 900 hPa þá er ekki vitað um margar lægðir dýpri en þá sem við eigum von á. Sökum staðsetningu okkar á Íslandi þá þekkjum við þessar dýpstu lægðir betur en flestir, enda verða þær flestar í nágrenni við Ísland.“
Í umfjöllun Bliku eru nokkrar djúpar lægðir rifjaðar upp og bent á að um miðjan desember hafi komið lægð upp að landinu þar sem þrýstingur í lægðarmiðju fór niður í 914 hpa.
Samkvæmt sjálfvirku spákorti Veðurstofu Íslands verður mjög hvasst á vestanverðu landinu snemma á fimmtudagsmorgun. Þannig gerir spáin ráð fyrir 20 metrum á sekúndu og rigningu í Reykjavík og 22 metrum á sekúndu í Stykkishólmi klukkan 9 á fimmtudag.
Á vef Bliku kemur fram að ólíklegt sé að lægðin nú slái dýptarmetið en ekki sé útilokað að um verði að ræða dýpstu lægð aldarinnar.
„Lægðin kemur til með að dýpka mjög hratt og erfitt er að spá fyrir um hversu hvasst verður og hvar versta veðrið verður. Til þess er óvissan of mikil. Líklegt verður að teljast að veður verði mjög vont auk þess sem óvenju há sjávarstaða gæti valdið vandræðum. Við munum fjalla frekar um lægðina þegar nær dregur og spáin skýrist frekar,“ segir á vef Bliku.