Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi, segir bæinn í viðræðum við Sæferðir um farsæla lausn á ágreiningi um árekstur ferjunnar Baldurs. „Það liggur fyrir gróft mat frá Vegagerðinni á umfangi tjónsins á Baldursbryggju í Stykkishólmshöfn og eru aðilar í samstarfi við Vegagerðina að meta endanlegt umfang tjónsins,“ segir Jakob. „Það er eindreginn samningsvilji af beggja hálfu og því ættu samningar að geta tekist.“

Nauðsynlegar viðgerðir hafa ekki enn verðir gerðar á bryggjunni en Jakob segir að tjónið hafi engin áhrif á landganginn.

Frá Stykkishólmi þaðan sem ferjan Baldur siglir.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær er ágreiningur um bótaskyldu Sæferða, sem eru í eigu Eimskipa, og telur ferjufélagið kröfu bæjarins fyrnda.

Í stefnu kemur fram að bærinn telji að um gáleysi hafi verið að ræða, því veður hafi ekki verið vont þann dag sem áreksturinn varð, í nóvembermánuði árið 2016. Í lögregluskýrslu kemur fram að skipstjóri hafi talið sig halda illa stjórn á bátnum vegna veðurs.

Aðspurður um ágreining bæjarins við erlent skipafélag vegna áreksturs skemmtiferðaskips á hafskipabryggju sumarið 2018, segir Jakob hann hafa snúist um aðferðafræði við viðgerð á bryggjunni og mat á umfangi tjónsins.

Um það hafi náðst samkomulag. Fjárhæð tjónsins hafi verið um 15 til 20 milljónir króna með virðisauka sem greiðist af tryggingafélagi útgerðarinnar í Bandaríkjunum.