Pólskir kafarar telja sig hafa fundið flak þýsks skips úr seinni heims­styrj­öldinni í Eystra­salti og eru þeir von­góðir um að í skipinu geti fundist gamall fjár­sjóður sem nas­istar stálu í Rúss­landi. Guar­dian greinir frá.

Um er að ræða hið svo­kallað Am­ber her­bergi (e. Am­ber room) sem var hluti af Kata­rínu­höllinni sem stað­sett er ná­lægt Sánk­tí Péturs­borg. Nas­istar tóku her­bergið, sem fyllt var gulli og rafi, í sundur og fluttu farminn til Königs­berg. Hafnar­borgin til­heyrði þá Þýska­landi en ber nú nafnið Kalinin­grad og til­heyrir Rúss­landi.

„Við höfum leitað flaksins síðan á síðasta ári þegar við áttuðum okkur á því að það gæti verið leyndar­mál þar að finna,“ segir Tomasz Stachura, einn af köfurunum.

Skipið bar heitið Karls­ru­he og var það fullt af farmi þegar sovéskar her­flug­vélar sökktu því undan ströndum Pólands árið 1945. „Það er enn í heilu lagi. Við höfum fundið her­bíla, postulín og marga kassa sem við vitum en ekki hvað er í.“

Sam­kvæmt skráðum gögnum tók Karls­ru­he þátt í að ferja þýska her­menn frá Sovét­ríkjunum og í vestur­átt í lok stríðsins. Fram kemur í um­ræddum gögnum að það hafi yfir­gefið höfnina í Königs­berg í flýti með stórum farmi og 1083 manns um borð.

„Þegar þetta er allt skoðað að þá snýst þetta um í­myndunar­afl. Að finna þetta þýska skip og þessa ó­þekktu kassa á botni Eystra­saltsins, það getur orðið mjög mikil­vægt þessari sögu,“ segir Tomasz Swara, annar kafari.

Am­ber her­bergið var hannað í Prúss­landi og gefið Pétri mikla, Rúss­lands­keisara, að gjöf árið 1716. Það hvarf eftir loft­á­rásir á Königs­berg í síðari heims­styrj­öldinni eftir að nas­istar höfðu rænt því. Margir telja að það hafi eyði­lagst en Rússar smíðuðu í kjöl­farið eftir­líkingu í Kata­rínu­höll.

BBC gerði herberginu skil í heimildarþætti árið 2018: