Það má segja að snjó­koman undan­farnar vikur hafi komið Ís­lendingum í opna skjöldu og hafa bæði bif­reiðar­eig­endur og gangandi veg­far­endur komið illa undan snjónum.

„Veður­minni Ís­lendinga er reyndar skammt,“ segir Runólfur Ólafs­son, fram­kvæmda­stjóri ís­lenskra bif­reiðar­eig­enda, í samtali við Fréttablaðið. „Það er ekki eins og það sé að koma okkur í opna skjöldu að það geti komið svona tíð eins og er nú.“

Hann segir þá að hann hafi orðið fyrir von­brigðum með hversu illa hefur gengið að hreinsa göturnar „Við höfum síðan ár sem við komum mjög vel undan vetri og það ætti þá að skapa borð fyrir báru til þess að auka þjónustuna þegar aukinnar þjónustu er þörf. Ég verð að viður­kenna að það hefur valdið von­brigðum hversu illa hefur gengið að hluta að hreinsa borgina til dæmis og höfuð­borgar­svæðið. Við höfum heyrt þetta sama um kaflana í ná­grenni höfuð­borgarinnar eins og Hellis­heiði til dæmis.“

Þá bendir hann á að þetta hafi víð­tæk á­hrif á sam­fé­lagið. „Það sem við erum að upp­lifa núna er að fólk fer að vera fyrir miklum per­sónu­legum skaða út af á­standinu. Borgin verður líka fyrir skaða, þetta dregur úr vinnu­fram­lagi og eykur kröfu á veg­haldarann sem er borgin að ein­hverju leyti vegna tjóns sem fólk verður fyrir. Fyrir utan því sem er al­var­legast sem eru slys á fólki sem eykur þá á­lagi á heil­brigðis­kerfið,“ segir Runólfur.

„Og auð­vitað eykur þetta þrýsting og vinnu­á­lag á þá sem sinna þessu starfi og ég veit að það er fólk að gera eins vel og það getur. En það er spurning hvort menn hafi ein­hvers staðar á leiðinni alveg ekki hugsað hlutina alveg í botn. Við þurfum tæki. búnað og mann­skap til að sinna þessu.“

Aukning í tjónatilkynningum

Sjón­varpskokkurinn Eva Lauf­ey Kjaran Hermannsdóttir er ein af mörgum lands­mönnum sem hafa lent í tjóni vegna á­standsins. „Ég bara lenti í svona holu, einni af mörgum á veginum á leiðinni upp á Akra­nes þar sem ég bý,“ segir hún í samtali við Fréttablaðið. „Það fóru tvö dekk og það er núna verið að skoða bílinn sem fór í við­gerð.“

Erla Tryggva­dóttir, sam­skipta­stjóri hjá Vá­tryggingar­fé­lagi Ís­lands segir að það sé aukning í tjóna­til­kynningum. „Já, það hefur verið aukning. En í sjálfu sér ekki veru­lega aukningu miðað við tíðar­farið undan­farnar vikur,“ segir hún.