Pedro Sánchez, starfandi forsætisráðherra Spánar og leiðtogi Sósíalistaflokksins (PSOE), fékk ekki meirihluta atkvæða þegar spænska þingið greiddi atkvæði um tilnefningu hans í embætti forsætisráðherra í gær. PSOE fékk flest þingsæti í kosningum í apríl og hefur reynt að afla stuðnings til að mynda minnihlutastjórn, en án árangurs.

Alls greiddu 124 þingmenn atkvæði með tillögunni, 155 lögðust hins vegar gegn henni og 67 sátu hjá. Af þessum 124 sem studdu Sánchez komu 123 úr PSOE og einn úr smáflokknum PRC. Öfgaíhaldsflokkurinn Vox sagði nei og það gerðu Lýðflokkurinn, Borgaraflokkurinn, katalónski sjálfstæðisflokkurinn Junts per Catalunya og tveir smáflokkar líka. Hinn stóri vinstriflokkurinn, Podemos, sat hjá. Það gerðu baskneski sjálfstæðisflokkurinn PNV og hinn katalónski ERC líka.

PSOE hafði átt í viðræðum við Podemos fram á síðustu stund, að því er El País greinir frá. Ekki gekk hins vegar að komast að samkomulagi.

Spánverjar fá annað tækifæri til þess að samþykkja forsætisráðherra í september. Ef það gengur ekki þarf að boða til kosninga í nóvember sem yrðu þá þær fjórðu á jafnmörgum árum.