Fyrstu ummerki þess sjást nú á Spáni að farið sé að hægja á sjöttu bylgju kórónuveirufaraldursins. Smitum Covid-19 snarfjölgaði yfir hátíðirnar þar í landi og í síðustu viku var met slegið þegar 179.125 smit mældust á einum degi.

Samkvæmt nýjustu tölum spænska heilbrigðisráðuneytisins, sem voru birtar á föstudaginn, hefur nú hins vegar hægst talsvert á daglegri fjölgun smita á Spáni. Þetta kann að benda til þess að hápunkti bylgjunnar verði brátt náð og að daglegum tilfellum fari að fækka. Í skýrslunni mældust 3.196 smit á hverja 100.000 íbúa Spánar og talið er að þær tölur gefi ekki endilega heildarmynd af ástandinu vegna tafa við tilkynningu nýrra smita og smita sem mældust í heimaprófum og náðu því ekki inn í skýrslur heilbrigðisyfirvalda.

Spænska heilbrigðisþjónustan hefur bognað undan álaginu vegna Covid að undanförnu og Isabel Jiménez, læknir á gjörgæsludeild Háskólasjúkrahússins í Navarra, segir smit meðal heilbrigðisstarfsmanna gera ástandið illt verra. „Almennt séð erum við mjög þreytt,“ sagði hún við fréttamiðilinn El País. „Mjög þreytt á ástandinu því við höfum staðið í þessu í tvö ár og þetta hefur verið mjög erfitt frá faglegu sjónarhorni, og það eru margir starfsmenn í veikindaleyfi. Ástandið er enn á ný orðið mjög strembið.“