Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í þættinum Bítið á Bylgjunni í morgun að hann vonaðist til að sjá megi fyrir endann á Covid-faraldrinum á þessu ári.

„Ég hef trú á því að við séum að horfa fram að það núna að þessir spádómar sem komu fram snemma í þessu ferli um að það gæti gerst við fengjum stökkbreytt veikara afbrigði sem dreifði sér hraðar að þá værum að sjá fram á endalokin á þessu, ég ætla að leyfa mér að vona að það sé að rætast. Þetta gæti orðið gott ár í þeim skilningi að við sjáum smám saman minni veikindi og sjáum fyrir endann á þessu,“ sagði Bjarni.

Stöndum ótrúlega sterkt

Var hann spurður hvort ríkiskassinn væri nokkuð að tæmast.

„Nei nei. Þrátt fyrir allt þá stöndum við ótrúlega sterkt og getum fjármagnað hallarekstur í einhvern tíma. Það er skynsamlegt að gera það. Við verðum líka að horfa til þess að gera hlutina betur með skilvirkari hætti, þannig sparað þar sem það er hægt einfaldlega til að gera einbeitt okkur að hlutum sem hafa setið á hakanum. Við erum að reyna að stunda áfram sterkar fjárfestingar. Við erum í fjárfestingarátaki. Við erum að byggja nýja spítala, þetta er eitt stærsta fjárfestingaverkefni sem Ísland hefur ráðist í, það er byggingin á nýju þjóðarsjúkrahúsi,“ sagði Bjarni og bætti við að einnig sé verið að fjárfesta í vegagerð, framkvæmdum við hafnir.

Bjarni sagði nauðsynlegt fyrir Alþingi að hafa gott eftirlit með sóttvarnaraðgerðum. „Það er nauðsynlegt að sú umræða eigi sér stað,“ sagði hann. „Við erum með í kringum 15 þúsund manns sem sæta verulega miklum takmörkunum vegna sóttkvíar eða einangrunar þá ætla ég rétt að vona að þingmenn átti sig á því að það er þeirra hlutverk að líta til þess í sínum störfum sem þingmenn hvernig verið er að framkvæmda þessar miklu takmarkanir. Það er þar sem deiglan á að vera, það er þar sem móta á leiðbeiningar til framkvæmdavaldsins.“

Halda þarf rétt á spilunum

Bjarni var svo spurður út í áhyggjur af verðbólgunni á árinu. „Það er alveg ástæða til að hafa áhyggjur af verðbólgu sem við getum lítið ráðið við. Þá er ég að vísa til þess að það verða verðhækkanir á alls konar hlutum sem við flytjum inn til landsins. Það getur verið mjög snúið að eiga við það,“ sagði hann. Ekki megi þó búast við neinni óðaverðbólgu en halda þurfi rétt á spilunum þegar kemur að kjaraviðræðum.