Þingkosningar í Ungverjalandi fara fram sunnudaginn 3. apríl. Talið er að kosningarnar gætu haft mikil áhrif á gjörvalla Evrópu.

Forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orbán, hefur verið við völd síðastliðin tólf ár, en það eru sex aðrir flokkar sem sækjast eftir plássi á ungverska þinginu. Helsta ógn við Orbán og flokk hans, Fidesz-flokkinn, er fylkingin United for Hungary og leiðtogi hennar Peter Marki-Zay.

United for Hungary er samfylking sex flokka, bæði hægra og vinstra megin í pólitík, sem leiða saman hesta sína í komandi kosningum. Markmiðið er skýrt: að sigra Orbán.

Í skoðanakönnunum mælist Fidesz-flokkurinn með 41 prósents fylgi, á meðan Peter Marki-Zay og United for Hungary eru með 39 prósenta fylgi.

Undanfarin ár hefur ríkisstjórn Orbán staðið í ströngu varðandi hin ýmsu málefni sem tengjast Evrópusambandinu og hefur til mynda hugtakið „Huxit“ verið notað um mögulega útgöngu Ungverjalands úr sambandinu.

Um 20 þúsund sjálfboðaliðar hafa boðið sig fram sem eftirlitsmenn til að fylgjast með kosningunum og mun Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu einnig fylgjast náið með þeim.