Leit að þeim níu sem er saknað eftir jarð­fall í bænum Ask í Gjerdrum í Noregi hefur ekki borið árangur það sem af er degi. Einn fannst látinn í gær en lög­regla segist enn vona að ein­hverjir þeirra sem er saknað séu enn á lífi.

Leitar­að­gerðir hafa nú staðið yfir í þrjá daga og minnka líkurnar á því að ein­hver finnist á lífi eftir því sem tíminn líður. „Það er enn mögu­legt að ein­hverjir hafi lifað af ef þeir hafa komist á svæði í jarð­fallinu þar sem loft kemst til þeirra. Við ein­blínum á að bjarga manns­lífum og munum halda á­fram að leita eins lengi og hægt er,“ sagði lög­reglu­stjórinn Ida Melbo Øyste­se á blaða­manna­fundi í dag.

Þrír leitar­hópar vinna nú að leitinni í bænum og hefur leitar­svæðið verið stækkað frá því í gær. Lög­reglan segir að björgunar­liðum hafi tekist að grafa sig niður að nokkrum bílum sem urðu undir jarð­veginum en þeir hafi allir verið mann­lausir. Í dag verður ein­blínt á að leita í nokkrum húsum sem urðu undir jarð­fallinu.

„Það er erfitt að segja til um hversu lengi við munum halda á­fram að leita. Tíminn vinnur ekki með okkur,” sagði Melbo.

Margir í­búar Gjer­drum urðu að yfir­gefa heimili sín eftir jarð­fallið en enn liggur ekki fyrir hve­nær þeir fá að snúa aftur heim.

Ida Melbo Øyste­se lögreglustjóri.
Fréttablaðið/AFP