Sveitarfélögin undirbúa nú hátíðarhöld á þjóðhátíðardaginn. Vonir standa til að takmarkanirnar, sem renna út 16. júní, verði rýmkaðar.

„Við erum með fingurna krosslagða,“ segir Bragi Bjarnason deildarstjóri frístunda og menningardeildar Árborgar. „Dagskráin er að mestu leyti klár en við erum með hana aðeins til hliðar á meðan við bíðum eftir tilkynningu frá sóttvarnaryfirvöldum.“

Bragi segist vera bjartsýnn á að hægt verði að halda hátíðina með svipuðum hætti og í fyrra, en þá hafði takmörkunum nýlega verið slakað úr 200 í 500 manns. Í dag er hámarkið 150 manns. „Við vonum að það verði hækkað enn meira í ljósi þess hversu margir eru bólusettir,“ segir hann.

Í fyrra var hátíðinni á Selfossi dreift á tvo garða og reynt að stíla dagskránna á hvorum stað inn á mismunandi hópa. Bragi segir helsta spurningarmerkið nú vera hvort hægt verði að hafa skrúðgöngu um bæinn. Það fari eftir fjöldatakmörkunum. „Eins og í fyrra verðum við tilbúin að breyta fram á síðustu stundu.“

Morgundagskráin í Reykjavík er hefðbundin. Athöfn verður í beinni útsendingu frá Austurvelli þar sem forsætisráðherra ávarpar þjóðina og fjallkonan flytur ljóð. Þá leggja stúdentar blómsveig að leiði Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur í Hólavallakirkjugarði.

Á Selfossi er gert ráð fyrir svipaðri dagskrá og í fyrra.
Fréttablaðið/Pjetur

Líkt og í fyrra verða lúðrasveitir á vappi í miðborginni og á Klambratúni og Hljómskálagarði verður létt stemning með sirkuslistafólki, matarvögnum og plötusnúðum síðdegis. Í ár verður einnig fagnað á Leiknisvellinum og götuskemmtun verður við Hegningarhúsið á Skólavörðustíg.

Ragnar Hólm Ragnarsson, verkefnisstjóri upplýsinga og kynningarmála hjá Akureyrarbæ, segist vonast eftir því að slakað verði á fjöldatakmörkunum, að minnsta kosti upp í 500 manns. „Við ætlum að spóla aðeins til baka og fara aftur inn í Lystigarðinn með meiri mannsöfnuð,“ segir hann. Einnig er gert ráð fyrir fjölskylduskemmtun á menntaskólatúninu, vestan við Lystigarðinn.

Í fyrra höguðu Norðanmenn sínum hátíðarhöldum með nokkurs konar halarófu í gegnum bæinn með stoppistöðvum hér og þar.

Ragnar segist bjartsýnn á tilslakanir en að stjórnendur séu alveg viðbúnir verði bakslag í faraldrinum. Vonast hann til þess að yfirvöld tilkynni breytingar á reglugerð um helgina til þess að hægt sé að hafa góðan frest til skipulagningar. „Ef það kemur stórt bakslag sláum við allt af. En við göngum út frá því að þetta sé allt á réttri leið og ef takmarkanir verða áfram 150 hólfum við svæðin niður,“ segir Ragnar.