Um helgina frumsýnir bandaríska íþróttastöðin ESPN fyrsta þáttinn í heimildarseríu um suðurafríska frjálsíþróttamanninn Oscar Pistorious sem afplánar nú fangelsisdóm fyrir manndráp. Hann skaut sambýliskonu sína Reevu Steenkamp þann 14. febrúar árið 2013 á heimili þeirra í Pretoríu. Þættirnir, The Life and Trials of Oscar Pistorious, eru hluti af hinni þekktu 30 for 30-seríu og verða vafalaust sýndir á fleiri sjónvarpsstöðvum.

Pistorious, sem er margfaldur gullverðlaunahafi í spretthlaupi á Ólympíuleikum fatlaðra, hefur mikil tengsl við Ísland. Hann var á styrktarsamningi við Össur sem hannaði gervifæturna og einnig er mikill vinskapur milli hans og fjölskyldu Ebbu Guðnýjar Guðmundsdóttur, kokks og fjölmiðlakonu, en sonur hennar er með sama fæðingargalla og Pistorious. Ebba mun koma fram í þáttunum.

Heimsbyggðin fylgdist grannt með réttarhöldunum yfir Oscar Pistorious frá árinu 2014 til 2016.
Mynd/Getty.

„Við höfum ekki séð þættina en höfum hitt leikstjórann oft,“ segir Ebba og vonar að þættirnir hjálpi Pistorious að hreinsa nafn sitt. „Margir vita ekki að hann var dæmdur fyrst fyrir manndráp af gáleysi af dómara sem er elst tíu systkina, svört, fötluð og alin upp í fátækrahverfi, það er svokölluðu Township. Hún sá sannleikann.“

Hefur alltaf haldið fast við framburð um innbrotsþjóf

Pistorious hefur alla tíð haldið því fram að hann hafi haldið að innbrotsþjófur væri í húsinu þegar hann skaut fjórum skotum í gegnum salernishurð. Þvældist málið til og frá í dómskerfinu og á endanum hlaut hann rúmlega 13 ára dóm fyrir að hafa mátt vita að hann gæti drepið einhvern ef hann skyti í gegnum hurð. Ekki fyrir að hafa myrt Reevu að yfirlögðu ráði.

Suður-Afríka er yndisleg en dómskerfið er ekkert lamb að leika sér við.

„Dómskerfið er refsiglatt og það átti að nota hann, mann sem hafði aldrei komið illa fram við konur, sem dæmi um hvað sé gert við menn sem meiða konur. Enda kynbundið ofbeldi í Suður-Afríku mikið vandamál,“ segir Ebba. „Við höfum alla tíð trúað frásögn hans og höfum heimsótt hann á hverju ári í fangelsið.“

Aðspurð segist Ebba ekki geta tjáð sig um líðan hans í fangelsinu í dag.

„Mér skilst að hann geti átt von á reynslulausn árið 2023 og ég vona að það gangi eftir,“ segir hún „Suður-Afríka er yndisleg en dómskerfið er ekkert lamb að leika sér við og af því Oscar er frægur átti að gæta þess og sýna heiminum að hann fengi ekki sérstaka meðferð sem snerist upp í að hann hefur fengið harðari og verri meðferð en flestir aðrir.“