Ólöf Helga Adolfsdóttir segir niðurstöðu Félagsdóms í máli hennar gegn Icelandair, sem var kveðin upp í dag, hafa komið á óvart. Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að Icelandair hafi ekki gerst brotlegt gegn lögum um stöðu trúnaðarmanna eða öryggistrúnaðarmanna með því að reka Ólöfu í ágúst í fyrra.

Ólöf Helga hélt því fram að hún hefði enn verið starfandi sem trúnaðarmaður og öryggistrúnaðarmaður þegar henni var sagt upp. Félagsdómur féllst ekki á þetta þar sem kjörtímabili hennar var lokið og hafði ekki verið endurnýjað þrátt fyrir að hún hefði áfram haft afskipti af tilteknum málum.

„Þetta er mjög slæmt fordæmi,“ segir Ólöf. „En þetta gefur okkur merki um að við þurfum að passa okkur að halda vel utan um að það séu kosningar um trúnaðarmenn á tveggja ára fresti. Það verður starf stéttarfélaganna að taka það upp og fylgja því eftir.“

Ólöf segir að hefð hafi verið fyrir því hjá Flugfélagi Íslands að trúnaðarmenn sætu lengur en í tvö ár án kosningar. Það hafi þó greinilega ekki verið nóg. „Ég vona að þetta verði til þess að við endurskoðum þetta aðeins og reynum að tryggja stöðu trúnaðarmanna enn frekar í komandi kjarasamningum. Hvernig það er gert er undir samninganefndum komið.“

Þá segist Ólöf ekki trúa öðru en að áhersla verði lögð á þetta mál í næstu kjaraviðræðum. „Þetta er rosalega stórt hagsmunamál fyrir launafólk. Það fæst enginn til að vera trúnaðarmaður því rétt vernd virðist ekki vera til staðar. Það er rosalega mikilvægt að hafa fulltrúa sem getur staðið upp og varið réttindi okkar á vinnustað án þess að eiga á hættu að vera rekinn.“