Britney Spears opnaði sig loks í vikunni um sjálfræðissviptingu sína, fyrst í réttarsal og svo á Instagram. Í 24 mínútna ræðu í réttarsalnum komust aðdáendur hennar að því hvernig er í pottinn búið hjá poppstjörnunni. Milljónir manna tengjast #FreeBritney hreyfingunni og berjast fyrir að Britney fái sjálfræði aftur.

Gréta Þorkelsdóttir, grafískur hönnuður, er einn mesti aðdáandi Britney hér á landi en hún var viðfangsefni Grétu í útskriftarverkefni hennar úr grafískri hönnun í Listaháskóla Íslands.

Gréta hafði lesið skýrsluna úr réttarsalnum og fannst, líkt og fleirum, erfitt að heyra hvernig líf hennar er. Þar kom fram að Britney fær ekki að hitta lækni til að fjarlægja lykkjuna, hún er látin taka liþíum geðlyf, hún má ekki keyra bíl eða vera ein í bíl með kærastanum sínum og ýmislegt fleira.

Vildi binda enda á sviptinguna

Britney sagði sjálf að hún vildi binda enda á sviptinguna, sem hún kallaði ofbeldi í sinn garð.

„Það eru stór tíðindi búin að gerast undanfarið,“ segir Gréta. „Það hefur svo sem verið fjallað um það áður að hún sé undir þessu, enda fullfær um að vinna, sjá um sig og tugi ef ekki hundruð manna á tónleikatúr, en er ekki með sjálfræði. Þar til nú hefur hún ekkert tjáð sig.“

Segir Britney hafi mótmælt ástandinu síðan 2014

Gréta segir að Britney hafi mótmælt þessu ástandi síðan 2014 en hún var svipt sjálfræði árið 2008. „Hún segist vera hrædd við föður sinn og hvað hann geti látið hana gera en einnig hvað hann lætur hana gera.

Hún hefur til dæmis verið send á hæli sem einhvers konar refsingu, ef hún stendur upp fyrir sjálfri sér. Pabbi hennar er með einhverja fasta liði í hverri viku sem eru ákveðnir af honum sem hún þarf að gera, en henni er refsað ef hún neitar.

Hún hefur engin réttindi sjálf – sem er þægilegt fyrir ótrúlega marga,“ segir Gréta.

Hún vonast eftir kraftaverki og að Britney losni undan sviptingunni sem fyrst en býst þó við að það taki einhver ár enda stórt og flókið mál. „Ég vona að hún losni undan þessu en ég óttast að það taki langan tíma. Þetta er svo ótrúlega sorglegt mál því hún er svo skær stjarna. Fólk hefur tjáð sig um hvað hún sé góð manneskja. Almennt hefur hún notað frægð sína til að gera góða hluti og vonandi dæmir dómarinn henni í hag fyrr en síðar,“ segir Gréta.

Gréta Þorkelsdóttir, grafískur hönnuður, er einn mesti Britney-aðdáandi landsins.
Mynd/Aðsend