Það er marks um ódrepandi borgarmálaáhuga Dags B. Eggertssonar borgarstjóra að hann sendir frá sér viðamikla bók um borgina við Sundin blá í næstu viku, en hún ber nafnið Nýja Reykjavík – umbreytingar á ungri borg, en þar fjallar hann um umskiptin í Reykjavík á síðustu áratugum sem hann hefur starfað í Ráðhúsinu og sögu þeirra róttæku hugmynda sem hann segir í sígandi mæli vera að verða að veruleika.

„Ég hef gengið með þessa bók í maganum býsna lengi, kannski allt frá því samstarf okkar Jóns Gnarr, forvera míns á stóli borgarstjóra, var og hét. Ég lærði svo ótal margt af honum, svo sem þá afstöðu að vera ekki alltaf að svara úrtöluröddum heldur gera bara hlutina. Þessi heildarhugsun hefur ekki verið til á einum stað fyrr en núna, með bókinni.“

Hann segir að ritið hafi í fyrstu átt að vera einskonar borgarþróunarbók, en svo þegar á leið hafi hún orðið persónulegri og vonandi skemmtilegri og aðgengilegri fyrir vikið: „Ég rek atburðarásina í borgarpólitíkinni á tíma mínum í borgarstjórn sem hefur verið vægast sagt litrík,“ segir hann og fórnar höndum og báðir sjáum við fyrir okkur fjörlegt sviðið, frá tímum Reykjavíkurlistans sem batt enda á óralangt valdaskeið íhaldsins í borginni árið 1994, þar til vinstriflokkarnir héldu um þræðina með Framsókn á nýrri öld, sigra Ingibjargar Sólrúnar, skamma valdatíð Þórólfs Árnasonar og Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, valdatöku Vilhjálms Þ. Vilhjámssonar, hundrað daga stjórnartíð Dags á mánuðunum áður en allt hrundi, upprisu og fall Ólafs M. Magnúsonar og loks fordæmalausa valdatíð Jóns Gnarr eftir kosningarnar 2010. Og við tökum báðir andköf, þvílíkir tímar og rússibanareið: „Auðvitað svipti ég hulunni af ýmsu sem gerðist á bak við tjöldin,“ segir hann með glotti á vör „milli þess sem ég segi frá metnaðarfullum áformum og alls konar hugmyndum og verkefnum sem eru á fárra vitorði.“

Dagur segir mikinn létti að vera búinn með bókina – og þegar hann er inntur eftir því hvað hafi komið honum mest á óvart við alla þessa rannsóknarvinnu er hann snöggur til svars: „Hvað þetta hefur verið viðburðaríkur tími,“ og hann lygnir aftur augum. „Hvað Reykjavík hefur sótt fram á mörgum sviðum. Og hvað krafturinn og umbreytingin er mikil. Viltu að ég telji allt upp? Vísindaþorpið í Vatnsmýri, kvikmyndaþorpið í Gufunesi, uppbygginguna úti á Granda, húsnæðisuppbyggingu fyrir alla tekjuhópa, endurnýjun miðborgarinnar, umbyltingu í hjólareiðum og þéttingu byggðar um alla borg ...“

En ég stoppa hann af og spyr hvort menn á borð við Bolla Kristinsson muni falla fyrir þessari bók?

„Ég vona að þeir lesi hana og átti sig á því að gömlu hugmyndirnar um hraðbrautaborg, þvers og kurs um Reykjavík hefðu endað með minni lífsgæðum allra og einni stórri umferðarsultu“ og Dagur minnir á að stjórnendur allra vistvænustu borga heims hugsi eins, að draga úr umferð og gera byggðina grænni og sjálfbærari.

Hér má lesa viðtalið við Dag í heild sinni: