Mikið tjón varð á húsi Ferða­fé­lags Ís­lands að Val­geirs­stöðum á Ströndum. Af myndum að dæma hefur fokið þak af við­byggingu við húsið og báru­járns­klæðning losnað af stórum hluta aðal­byggingarinnar. Stefán Jökull Jakobs­son, yfir­skála­vörður hjá Ferða­fé­laginu segir að tjónið sé tölu­vert. Vegna veðurs viti hann hins vegar ekki hve­nær hægt verður að komast til að skoða tjónið. Hann hafði frétt að ferða­maður hafi skilið skála fé­lagsins á Fimm­vörðu­hálsi opinn fyrir nokkrum dögum og sagðist í sam­tali við Frétta­blaðið að hann vonaðist til að skálinn væri „enn á staðnum.“

Lifir í voninni

„Við erum bara að bíða eftir að veðrið gangi niður svo að við komumst norður á Strandir,“ segir Stefán þegar hann er spurður um tjónið á Val­geirs­stöðum. „Það sem hangir þar á spýtunni er að það er ekki auð­velt að komast þarna norður fyrir á Strandir þar sem það er ekki mokað þar á hverjum degi. Þannig að við vitum ekki alveg hve­nær við munum komast.“
Stefán segir að hann viti ekki betur en að tryggingar fé­lagsins nái yfir foktjón á borð við það sem varð á Val­geirs­stöðum. „Við svo sannar­lega vonum það.“

Hann segir að hann hafi ekki heyrt af á­standi á öðrum skálum ferða­fé­lagsins en hann fari á föstu­daginn á Fimm­vörðu­háls að skoða á­stand skála fé­lagsins þar. „Ég fékk fréttir af því núna fyrir þennan hvell að það hafði ein­hver ferða­maður skilið Bald­vins­skála eftir opinn. Það var annar Ís­lendingur sem kom að húsinu og reyndi að loka því eins vel og hann gat,“ en hurðin hafði skemmst við það að standa opin.

„Ég vonast til þess að húsið sé á staðnum,“ segir Stefán sem er hæfi­lega bjart­sýnn um að svo sé. „Ég lifi í voninni.“

Skoða ástandið á næstu dögum

Fram­undan á næstu dögum er að fara í eftir­lits­ferð og skoða á­standið á öðrum skálum á vegum fé­lagsins. Þeir eru 38 talsins og því er ljóst að það er mikil vinna fyrir höndum. „Það er tals­verð vinna að fara um og komast í alla skála og reyna að stað­festa að það hafi ekki orðið tjón.“

Hafi orðið tjón á húsum getur það haft á­hrif á starf­semi fé­lagsins næsta sumar, að sögn Stefáns. Hann vonist þó til að fé­lagið hafi haft heppnina með sér og að ekki hafi orðið tjón á skálum fé­lagsins.