Ríkis­stjórn Donald Trump vill að tíma­mörk á varð­haldi barna við landa­mæri Banda­ríkjanna að Mexíkó verði felld úr gildi. Helga Vala Helga­dóttir, þing­kona Sam­fylkingarinnar, segist vona að utan­ríkis­ráð­herra ræði að­búnað barnanna við Mike Pence, vara­for­seta Banda­ríkjanna í væntan­legri heim­sókn hans til Ís­lands.

Í frétt Guar­dian um málið kemur fram að for­svars­menn heima­varnar­ráðu­neytis Banda­ríkjanna telji sig nú ekki skuld­bundna til að virða hið svo­kallaða Flor­es sam­komu­lag við dóm­stóla sem meinar stjórn­völdum að halda börnum inn­flytj­enda lengur en í 20 daga. Þess í stað telja þeir sig geta haldið börnunum þar til máls­með­ferð þeirra er lokið, það er að segja, í ó­á­kveðinn tíma.

„Þessar nýju fréttir eru auð­vitað svaka­legar,“ segir Helga í sam­tali við Frétta­blaðið. „Ríkis­stjórn Trump hefur auð­vitað sýnt hvað hún vill gera, hún vill ekki tryggja mann­réttindi barna og fjöl­skyldna á flótta við landa­mærin. En var rekin til baka með það af dóm­stólum en vilja nú greini­lega fara gegn niður­stöðum dómsins,“ segir Helga.

Al­gjör­lega ó­aftur­kræft tjón

Hún segir að niður­staðan hafi verið sú að ekki mætti halda börnunum lengur en í tuttugu daga. Hún segir nýjar skýrslur benda til þess að banda­rísk stjórn­völd hafi ekki haldið sam­komu­lagið í heiðri.

„Á­standið þarna er mjög slæmt. Börn týnast og kort­lagning á því hvert börn eru send sem tekin eru af for­eldrum er í al­gjöru lama­sessi. Það eru börn sem enginn veit hver eru, þar sem ekki er hægt að reka það hvað var um þau,“ segir Helga.

„Þau ætla greini­lega að keyra á enn harðari stefnu nú og fara gegn fyrir­skipunum dóm­stóla. Og halda börnunum frá for­eldrum, í sér­stökum flótta­manna­búðum, fjarri að­stand­endum. Þetta er gríðar­lega al­var­legt og getur haft slíkar af­leiðingar á heilsu barnanna að það er al­gjör­lega ó­aftur­kræft tjón.“

Vill að ís­lensk stjórn­völd for­dæmi með­ferðina á börnunum

„Ég hef í sumar verið að vinna að þings­á­lyktunar­til­lögu sem er til­búin og verður lögð fram strax í upp­hafi þings, þar sem ég vona að Al­þingi standi saman að því og segi að ís­lensk stjórn­völd for­dæmi þessa hrylli­legu með­ferð á börnum á flótta við mexí­kósku landa­mærin,“ segir Helga.

Hún segist spurð hafa trú á því að ís­lenskir þing­menn séu sam­mála um að for­dæma þessa með­ferð á litlum börnum á flótta.

„Ég bara trúi ekki öðru og vona að utan­ríkis­ráð­herra muni af fullri hörku ræða þetta við vara­for­seta Banda­ríkjanna þegar hann kemur hingað í byrjun næsta mánaðar,“ segir hún.

„Þó að við hlæjum að því þegar verið er að tala um Græn­land og verið að gera alls­konar gloríur erum við í þessu til­viki að tala um líf barna og verðum ein­fald­lega að bregðast við. Við þurfum að standa upp og verja þessi börn.“