Úkraínski blaðamaðurinn Ihor Stakh, sem sækist eftir dvalarleyfi á Íslandi vegna ofsókna sem hann sætir í heimalandi sínu, hefur verið boðaður í viðtal hjá kærunefnd útlendingamála um miðjan ágúst.

Ihor var synjað um dvalarleyfi af Útlendingastofnun í mars síðastliðnum en hann kærði ákvörðunina til kærunefndarinnar.

„Ég tel ákvörðun Útlendingastofnunar einfaldlega vera ranga og ég vona að kærunefndin leiðrétti þetta,“ segir Arndís A. K. Gunnarsdóttir, lögfræðingur hjá Rauða krossinum.

Arndís tók nýverið við máli Ihor en fyrrum talsmaður hans hjá Rauða krossinum sendi kærunefndinni greinargerð vegna ákvörðunar Útlendingastofnunar í lok mars. Síðan hafa viðbótargögn verið send nefndinni en Ihor segist enn verða fyrir hótunum á samfélagsmiðlum.

„Þegar mál eru í efnismeðferð snýst þetta svo mikið um trúverðugleika. Hvernig manneskjan kemur fyrir og hvort þú trúir henni og hennar sögu. Það er okkar reynsla að fólk sé boðað í viðtal hjá kærunefndinni þegar ákvörðun Útlendingastofnunar veltur á trúverðugleika,“ segir Arndís.

Fréttablaðið fjallaði um mál Ihor í mars síðastliðnum en hann kom til landsins í september á síðasta ári. Hann hefur í starfi sínu sem blaðamaður fjallað um spillingu meðal úkraínskra stjórnmála- og viðskiptamanna.

Í greinargerðinni til kærunefndarinnar er gerð alvarleg athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki fjallað í úrskurði sínum um slæmar aðstæður blaðamanna í Úkraínu og sértækar aðstæður Ihor.

„Úkraína er almennt talin nægilega örugg til að fólk geti notið verndar stjórnvalda sinna. Hins vegar höfum við opinberar heimildir fyrir slæmri stöðu blaðamanna þar og ofsóknum gegn þeim. Oft höfum við engar sannanir en í þessu máli höfum við mikið af sönnunum,“ segir Arndís.

Kröfur Ihor og talsmanns hans eru þær að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns. Til vara er þess krafist að honum verði veitt viðbótarvernd og til þrautavara að honum verði veitt dvalarleyfi af mannúðarsjónarmiðum.

Nýlega fannst úkraínskur þingmaður látinn á skrifstofu sinni. Ihor sem starfaði með þingmanninum er sannfærður um að um morð hafi verið að ræða þótt lögreglan rannsaki málið sem sjálfsmorð.

„Mér var hótað vegna starfa minna fyrir hann. Stjórnmálamenn og blaðamenn eru myrtir í Úkraínu og málin eru ekki einu sinni rannsökuð. Hvað ætti að stoppa þá í að drepa mig ef ég þyrfti að fara aftur til Úkraínu?“ spyr Ihor.

Ihor lætur vel af dvöl sinni á Íslandi en hann hefur stundað íslenskunám undanfarna mánuði. Frítíma sínum ver hann að miklu leyti til útivistar og ýmiss konar líkamsræktar. Hefur hann meðal annars stundað sjósund og dreymir um að synda Viðeyjarsund.

„Ég reyni bara að hafa nóg fyrir stafni svo ég geti dreift huganum frá því að hugsa um framtíð mína,“ segir Ihor.

Úkraínski blaðamaðurinn Ihor Stakh,