Bæjarstjóri Vesturbyggðar og oddviti Tálknafjarðarhrepps funduðu með formönnum stjórnarflokkanna og sveitarstjórnarmönnum þessara tveggja sveitarfélaga í gær um þá stöðu sem komin er upp hjá fiskeldisfyrirtækjum í þessum sveitarfélögum.

Ákvörðun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hefur verið mikið í umræðunni, en á föstudaginn ákvað nefndin að fella úr gildi starfs- og rekstrarleyfi eldislaxfyrirtækjanna Fjarðalax ehf. og Arctic Sea. Fyrirtækin tvö, Fjarðalax og Arctic Sea Farm, höfðu fengið leyfi frá MAST til að framleiða 10.700 tonn annars vegar og 6800 tonn hins vegar í opnum sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greinir frá fundarhöldum á Facebook-síðu sinni þar sem hún kveðst vona að farsæl lausn finnist í máli sveitarfélaganna tveggja. Segir hún að á fundinum hefði það meðal annars komið fram að fyrirtækin  hefðu í góðri trú aflað með réttum hætti öll tilskililin leyfi. „Þau lögðu áherslu að starfsemi fyrirtækjanna væri þess eðlis að það væri til þess fallið að valda þeim tjóni til allrar framtíðar að stöðva starfsemina án fyrirvara, og ekki í anda meðalhófs. Þau lýstu sömuleiðis áhyggjum sínum af áhrifum þess á samfélögin fyrir vestan,“ ritar Katrín.

Þá segir hún að formenn stjórnarflokkana hafi upplýst á fundinum að bæði sjávarútvegsráðherra og umhverfisráðherra séu með til skoðunar hvaða leiðir séu færar til þess að gæta meðalhófs í þessu máli og öðrum „þannig að fyrirtæki geti almennt fengið sanngjarnan frest til að bæta úr þeim annmörkum sem koma fram í kæruferli og faglega sé staðið að öllum málum.“ Að lokum segist Katrín vona að farsæl lausn finnist í málinu. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, tjáði sig um málið á veraldarvefnum fyrr í dag. Segir hann að yfir 300 störf séu beintengd fiskeldinu á sunnanverðum Vestfjörðum auk tuga starfa í Ölfusi og Þorlákshöfn. 

„Það er mikilvægt að allir átti sig á raunstöðunni og mikilvægi þess að atvinna sé til staðar. Í öðrum löndum höfum við séð nákvæmlega sömu þróun - þ.e. að svæði sem áður máttu þola fólksfækkun hafa nú snúið við með uppbyggingu fiskeldis á þeim svæðum. - Allir eru sammála um mikilvægi þess að byggja fiskeldið upp á varkárinn og sjálfbæran hátt - ekki síst innan greinarinnar sjálfrar,“ skrifaði Sigurður Ingi á Facebook-síðu sína fyrr í dag.

Fréttin hefur verið uppfærð.