Flestum jólahlaðborðum, jólatónleikum og jólaboðum hefur verið aflýst þessi jólin. En óvíst er hvernig jólahátíðin sjálf fer fram.

„Hvernig jólahátíðinni verður háttað í ár ræðst af því hvað gerist í þessum blessaða faraldri í desember," segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, aðspurður hvernig jólahátíð landsmenn mættu búa sig undir.

Hann segir að ómögulegt sé að segja til um það núna hvort að jólaboðin fari fram á fjarfundum eða ekki, en hann trúi að hægt verði að aflétta takmörkunum frekar ef vel gengur að ná tökum á faraldrinum í desember.

Hann ráðleggur þó fólki að fara rólega í jólaboð þessi jólin. „Mér finnst sjálfsagt að fólki bjóði ömmum og öfum, og eldra fólki í jólaboð ef þau treysta sér til að koma. Fólk verður þá líka að gæta vel að öllum einstaklingsbundnum sóttvörnum, með handþvotti og öðru slíku." Það er því ljóst að sprittbrúsinn verður á jólaborði landsmanna í ár.

Alma D. Möller landlæknir segir að til skoðunar sé að koma með sérstakar leiðbeiningar um boð í heimahúsum og hvernig best er að hegða sóttvörnum. „Þetta er eitthvað sem við ætlum að skoða næstu daga," segir Alma.