Útvarpsstjóri, Stefán Eiríkisson, segist ekki hafa séð fyrir að Samherji tengdist Skaupinu með eignarhaldi á félaginu sem framleiðir skaupið.

„Við vorum ekki að velta fyrir okkur eignarhaldi á þessu framleiðslufyrirtæki,“ segir Stefán Eiríksson útvarpsstjóri vegna fréttar Stundarinnar um að fyrirtæki Kristjáns Vilhelmssonar, eins aðaleiganda Samherja, eigi fyrirtækið sem framleiðir Áramótaskaup Ríkisútvarpsins.

„Við erum að skipta við reyndan framleiðanda, höfunda skaupsins, þeir halda utan um það verkefni óháð því hvernig eignarhaldi á framleiðslufyrirtæki er háttað,“ segir útvarpsstjóri.

Í ljósi deilna Rúv og Samherja vegna fréttaflutnings Helga Seljan og félaga af meintu mútumáli Samherja í Namibíu, Seðlabankamáli spurði Fréttablaðið Stefán hvort honum þætti málið vandræðalegt.

„Þetta er nú ekki eitthvað sem við skoðuðum fyrirfram, hvernig eignarhaldi er háttar heldur leituðum við til reynds framleiðanda,“ svarar Stefán.

Fram hefur komið að Kristján vildi láta taka Edduverðlaun Helga Seljan af honum vegna Seðlabankamálsins eftir að Helgi Seljan var valinn sjónvarpsmaður ársins tvö ár í röð.

Kristján sendi tölvu­póst til fram­kvæmda­stjóra Íslensku kvik­mynda- og sjón­varps­aka­dem­í­unnar sem veitir Eddu­verð­launin 17. jan­úar árið 2019 og fór fram á að Helgi yrði sviptur Eddu­verð­laun­um.

Helgi sagði þegar Fréttablaðið óskaði viðbragða hans í gær.

„Ég vona bara að þetta gangi vel hjá þeim og verði skemmtilegt. Og vonandi fær svo Kristján bara Edduverðlaun, enda fáir uppteknari af þeim en hann."

Stundin hefur eftir Sigurjóni Kjartanssyni, einum höfunda Skaupsins, að hann hafi ekki mikið spáð í eignarhald á félagi Kristjáns, Sigtúni sem framleiðir þáttinn. Þá kemur fram að Sigurjón þekki ekki Kristján.