Starfsmenn Landhelgisgæslunnar luku í dag við að steypa yfir hluta flaks El Grillo á Seyðisfirði sem úr hefur lekið olía. Aðgerðin var nokkuð snúin; það er erfitt að steypa neðansjávar en stjórnandi verksins segir það hafa gengið vonum framar.
„Við kláruðum að steypa í dag en við þurfum að fara aftur niður að skipinu á morgun og skoða hvernig til hefur tekist,“ segir Sigurður Ásgrímsson, yfirmaður séraðgerðasveitar Landhelgisgæslunnar, sem stjórnaði framkvæmdunum. Áhöfnin á varðskipinu Þór hefur unnið með séraðgerðasveitinni síðan á föstudag í síðustu viku við að undirbúa aðgerðirnar. Í gær var hafist handa við að steypa fyrir olíulekann.

El Grillo var breskt olíubirgðaskip sem sökkt var af þýskum flugvélum þar sem það lá á Seyðisfirði árið 1944. Skipið liggur nú á botni fjarðarins á 32 metra dýpi og hefur olía sést í sjónum í kringum það annað slagið síðan. Í fyrra fundu kafarar svo lekann við tanka skipsins.
Til að steypa fyrir lekann var notast við rör sem kafað var með niður að flakinu en sjö kafarar hafa þurft að skiptast á að beina rörinu á rétta staði því hver þeirra getur aðeins verið í kafi í 20 mínútur í senn. „Steypan er fljót að þorna þarna. Hún er orðin þurr að mestu leyti á svona 40 mínútum,“ segir Sigurður. „Þannig þetta þarf allt að ganga eins og smurð vél.“

Og það var einmitt það sem gerðist. Framkvæmdin gekk vonum framar að sögn Sigurðar þó að hann sé ekki alveg tilbúinn að hrósa fullum sigri strax í dag. Kafari verður sendur niður að skipinu á morgun með myndavél, ef veður leyfir, til að athuga hvort steypan haldi ekki örugglega. Þá verður einnig að skoða allt flakið aftur til að sjá hvort leki nokkuð einhver olía annars staðar frá því.
