Undir­búnings­nefnd kjör­bréfa­nefndar Al­þingis mætti á lög­reglu­stöðina í Borgar­nesi rétt upp úr klukkan níu í morgun.

Þetta er þriðja vett­vangs­ferð nefndarinnar í Borgar­nes frá því að nefndin tók við störfum eftir kosningar.

Birgir Ár­manns­son, for­maður nefndarinnar, kveðst vona að þetta sé síðasta vettvangsferð nefndarinnar í Borganes.

Hann segir nefndina vera fara yfir flokkun gagnanna í kjöl­far spurninga sem hafa komið upp í starfi nefndarinnar. „Reyna átta okkur betur á at­riðum sem hafa verið ó­ljós í þessum fyrri ferðum okkar.“

Að sögn Birgis sé ekki á dag­skrá á að telja nein at­kvæði heldur einungis skoða flokkun þeirra.

Formaður nefndarinnar stígur út úr rútu nefndarinnar í Borgarnesi í morgun.
Mynd/Sigtryggur Ari

Að­spurður hvort verið væri að fara sér­stak­lega yfir þau at­kvæði sem yfir­kjör­stjórn í Norð­vestur­kjör­dæmi endur­taldi áður en talningar­fólk mætti til talningar á Hótel Borgar­nesi á sunnu­deginum 26. septem­ber þegar ljóst var að ráðast þyrfti í endur­talningu at­kvæða sagði Birgir svo ekki vera.

„Við erum ekki að fara telja at­kvæði, við erum að fara yfir flokkun og fá betri til­finningu fyrir því hvernig hún er. Í ljósi spurninga sem hafa komið upp í störfum okkar á undan­förnum dögum,“ segir Birgir.

Hann segir engan á­greining hafa verið uppi hjá nefndinni um að fara í þriðju vett­vangs­ferðina.

„Til þess að fá þá svör við þeim spurningum sem höfðu komið upp í okkar sam­tölum.“
Betra væri að gera það fyrr en síðar.

Að­spurður hvort gilda at­kvæðið sem fannst verði til skoðunar hjá nefndinni í dag segir Birgir að það verði skoðað í leiðinni, „en það hafi ekki verið neinn vafi um til­vist hans. Hann væri ekki vanda­mál í sjálfu sér.“