Kosið verður um sameiningu fimm sveitarfélaga á Suðurlandi samfara alþingiskosningum. Fyrir skemmstu voru haldnir íbúafundir í þeim öllum þar sem fulltrúar sveitarfélaganna fræddu fólk um verkefnið og svöruðu spurningum.

Anton Kári Halldórsson, formaður samstarfsnefndar, segir fundina hafa gengið vel og að vitaskuld hafi verið skiptar skoðanir.

„Okkar von er sú að kjörsóknin verði góð þannig að niðurstöðurnar verði skýrar,“ segir hann.Sjálfur er Anton afar fylgjandi sameiningunni.

„Hún gerir okkur gildandi, einfaldar stjórnsýsluna og gerir okkur kleift að veita þá þjónustu sem ber að veita og bæta hana,“ segir hann. En verði sameiningin samþykkt verður til víðfeðmasta sveitarfélag landsins með fimm þúsund íbúa.“

Anton á erfitt með að segja til um hvernig hann haldi að kosningin fari. „Ég held að þetta gæti orðið knappt víða.“Það vakti nokkra athygli þegar Einar Freyr Elínarson, oddviti Mýrdalshrepps, hélt ræðu á íbúafundi í Vík og lýsti sig andvígan sameiningu.

Einar segir sameiningu ekki aðkallandi fyrir Mýrdalshrepp. „Hér eru mörg mikilvæg verkefni til að takast á við og ég er hræddur um að fókusinn yrði ekki nægilega mikill á þau,“ segir hann. Nefnir hann skipulagsmálin og þróun íbúabyggðar í Vík. Einnig byggingu nýs hjúkrunarheimilis og leikskóla.

Hann segir það hafa breytt myndinni að Alþingi hafi horfið frá áætlunum um lágmarksíbúafjölda upp á þúsund, sem Mýrdalshreppur er undir sem stendur.

„Mér finnst þessi ákvörðun Alþingis viðurkenning á því að smærri sveitarfélög hafi tilverurétt,“ segir hann.Sameining var samþykkt í Suður-Þingeyjarsýslu í júní en felld í Austur-Húnavatnssýslu. Þar áður varð til stærsta sveitarfélag landsins á Austurlandi, Múlaþing.

Gauti Jóhannesson, forseti sveitarstjórnar í Múlaþingi, segir að fyrir utan faraldurinn og hamfarirnar á Seyðisfirði hafi allt gengið vel eftir sameiningu Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar. „Þetta tryggir stærra bakland í ýmsum málaflokkum, til dæmis skóla-, félags- og skipulagsmálum,“ segir Gauti.

„Það er óneitanlega breiðari faglegur grunnur sem við byggjum á en við gerðum, það á sérstaklega við um litlu sveitarfélögin.“