Starfsmenn Al­vot­ech tóku sig ný­verið saman og söfnuðu alls 3,2 milljónum til styrktar UNICEF sem rennur beint í neyðar­sjóð UNICEF á Ind­landi. Helmingi var safnað af starfsmönnum, eða 1,6 milljón og svo bætti fyrirtækið við sömu upphæð.

Ein starfsmanna, Ritika Lakhotia, segir í samtali við Fréttablaðið að í fyrstu bylgju CO­VID-19 í Ind­landi hafi Ind­land komist nokkuð vel út úr því.

Heil­brigðis­kerfið kom ekki of illa út og fólk gat verið í „lock­down“, en þegar seinni bylgjan skall á þessu ári þá var það mjög slæmt. Veiran hafi stökk­breyst og bylgjan var skyndi­leg,“ segir Ritika sem er frá Indlandi og hefur starfað fyrir fyrir­tækið í sex mánuði.

Hún og samstarfsmaður hennar, Jega­deesh Subramani­yam, eru tvö þeirra hundrað ind­verskra starfs­manna hjá Al­vot­ech sem stóðu fyrir söfnuninni innan fyrir­tækisins, ásamt öðrum starfsmönnum. Enn er þó hægt að styðja við söfnun UNICEF.

Hún segir að dauðs­föllum hafi fljótt fjölgað seinni bylgju far­aldursins á Ind­landi og að þá hafi veiran haft veru­lega á­hrif á börn og þungaðar konur, sem hún gerði ekki áður.

„Það var erfitt fyrir ríkis­stjórnina að takast á við það. Mér finnst þau hafa staðið sig nokkuð vel. Ind­land er mjög fjöl­mennt land og ríkis­stjórnin er að reyna að ná til allra en það eru til­felli það sem þau gera það ekki,“ segir Ri­taka.

Hvað varðar fréttir um það að heil­brigðis­kerfið sé við það að bogna undan á­lagi segir Ritika að það sé auð­vitað mikið álag en telur að miðað við mann­fjölda hafi yfir­völdum gengið vel að ná til allra.

Hún segir að það séu enn mjög mörg til­felli að greinast á hverjum degi og til að ná að annast alla sem þurfa á að­stoð að halda þá hafa mörg fé­laga­sam­tök, eins og UNICEF, stigið inn til að ná til allra.

„Við erum langt að heiman, mjög langt og við getum ekki gert neitt hér núna. Allt sem við getum við gert er að safna fjár­magni til að að­stoða þau sem eru að veita að­stoð á Ind­landi,“ segir Ri­taka.

Bólusetning gengur ágætlega í Indlandi en neyðin er enn mikil.
Fréttablaðið/EPA

Ekki í boði fyrir alla að halda sig heima

Hún segir að vegna bágra aðstæðna og fátæktar séu margir sem geti ekki verið heima, þau þurfi að vinna, og þau vilji með söfnuninni stuðla að því að allir Ind­verjar fái þá að­stoð sem þau þurfa á meðan far­aldurinn geisar enn.

Jega­deesh segir að þótt svo að það sé gott heil­brigðis­kerfi til staðar í Ind­landi þá ráði það illa við það álag sem er vegna far­aldursins.

„Til að takast á við þennan gríðar­lega fjölda til­fella þá þarf Ind­land á að­stoð að halda,“ segir Jegedeesh og segir að það sé mikil þörf á alls­kyns heil­brigðis­búnaði eins og súr­efniskútum, klæðnaði og öðru.

Hann segir að það séu mörg börn sem hafi misst for­eldra sína sem þurfi á að­stoð að halda.

„Að að­stoða við að bjarga lífi ein­hvers er það besta sem þú getur gert, það er ekkert annað sem er meira göfugt,“ segir Jegedeesh.

Þau segja bæði að vegna mikils mann­fjölda og hversu dreif­býlt landið er þá sé erfitt fyrir yfir­völd að ná til allra en sam­tök eins og UNICEF, sem stað­sett eru víða um landið, vonast þau til þess að geta náð til fólks sem yfir­völd ná ekki til.

Þau í­treka að fjár­magnið sem safnast fer allt í gegnum UNICEF og þannig sé tryggt að þau sem mest þurfa á því að halda fái fjár­magnið.

„Við vonum til þess að allur heimurinn geti komið saman og hjálpað Ind­landi á þessum tíma í neyð,“ segir Ritika að lokum.

Steinunn segir það mikið áhyggjuefni hve hratt veiran dreifist um á Indlandi.
Fréttablaðið/Eyþór

Söfnun Al­vot­ech er nú lokið en enn er hægt að styrkja söfnun UNICEF hér.

„Við erum starfs­mönnum og stjórn­endum Al­vot­ech inni­lega þakk­lát fyrir þeirra frum­kvæði og mikil­vægt fram­lag í bar­áttuna gegn CO­VID-19. Stjórn­laus út­breiðsla veirunnar á Ind­landi og í öðrum löndum í Suður-Asíu er mikið á­hyggju­efni og glöggt dæmi um það hversu hratt veiran getur lamað heil­brigðis­kerfi. Starfs­fólk UNICEF vinnur nú í kappi við tímann, t.d að út­vega súr­efnis­birgðir, and­lits­grímur og skimunar­búnað, að­stoða við bólu­setningar og sinna fræðslu um sótt­varnir og er stuðningur við neyðar­að­gerðirnar því afar dýr­mætur. Þetta er á­skorun sem allur heimurinn þarf að bregðast við,“ segir Steinunn Jakobs­dóttir, fjöl­miðla­full­trúi UNICEF.