Ekki er von á stefnu­breytingum af hálfu ís­lenskra stjórn­valda í garð Taí­vans, ef eitt­hvað er að marka svar utan­ríkis­ráðu­neytisins við fyrir­spurn Frétta­blaðsins. Spennan við Taí­vansund er magn­þrungin vegna hernaðar­æfinga Kín­verja, sem gera til­kall til eyjarinnar, og óttast er að þeir séu að gera sig lík­lega til inn­rásar.

„Ís­land leggur á­herslu á frið­sam­lega úr­lausn deilu­efna milli ríkja og innan ríkja,“ kemur fram í svari ráðu­neytisins. „Aukið spennu­stig á svæðinu veldur á­hyggjum og er það von okkar að úr þeirri spennu dragi fljót­lega.“

Ís­land á ekki í stjórn­mála­sam­bandi við Taí­van þar sem Ís­lendingar eru fylgjandi stefnunni um eitt og ó­skipt Kína. Stjórn­völd bæði í Al­þýðu­lýð­veldinu Kína og á Taí­van (sem form­lega heitir Lýð­veldið Kína) gera til­kall til þess að vera rétt­mæt stjórn alls Kína og því á ekkert ríki í form­legu stjórn­mála­sam­bandi við þau bæði.

„Eins og lang­flest ríki heims hefur Ís­land viður­kennt eitt og ó­skipt Kína,“ stendur í svarinu. „Ríkin fögnuðu fimm­tíu ára stjórn­mála­sam­bandi á síðasta ári en til þess var stofnað sama ár og stjórn­völd þar voru viður­kennd sem lög­mæt stjórn­völd af hálfu alls­herjar­þings Sam­einuðu þjóðanna.“

„Ís­land leggur á­herslu á frið­sam­leg og upp­byggi­leg sam­skipti um heim allan og virðingu fyrir mann­réttindum og al­þjóða­lögum. Sam­skipti Ís­lands og Kína hafa verið góð, meðal annars á sviði við­skipta og sjálf­bærrar orku­nýtingar. Ís­lensk stjórn­völd hafa þó ekki hikað við að gagn­rýna mann­réttinda­brot kín­verskra stjórn­valda í Xinjiang-héraði og tekið þátt í þvingunar­að­gerðum vegna þeirra. Ís­land hefur sömu­leiðis gagn­rýnt fram­göngu stjórn­valda á sjálf­stjórnar­svæðinu Hong Kong sem brotið hefur í bága við al­þjóð­legar skuld­bindingar.“

Litáar leyfðu Taí­vönum að opna ræðis­manns­skrif­stofu í Vil­níus í fyrra þrátt fyrir að eiga í stjórn­mála­sam­bandi við Al­þýðu­lýð­veldið Kína og upp­skáru þannig bræði Kín­verja. Slíkt virðist ekki vera uppi á teningnum hér á landi. „Engin á­form eru uppi um opnun sendiskrif­stofu á sjálf­stjórnar­svæðinu Kín­verska Taípei en Ís­land á í sam­skiptum við full­trúa svæðisins, meðal annars á vett­vangi WTO þar sem það á aðild sem sér­stakt toll­svæði.“ Ekki kom fram í svarinu hvort Ís­land tæki til greina að viður­kenna Taí­van sem sjálf­stætt ríki ef ríkis­stjórn eyjarinnar á­kveður að lýsa yfir sjálf­stæði frá megin­landinu.