Innlent

„Held ég hafi sjaldan verið jafn bjartsýn“

„Þetta er tilfinningaþrungin stund fyrir fólk á þessum vettvangi,“ segir Dr. Mendell, maður sem staðið hefur fyrir þróun genameðferðar sem gæti læknað duchenne.

Hjörvar og Sif með börnin sín fjögur; (frá vinstri) Addú Sjöfn, Baldvin Tý, Önnu Iðunni og Baldur Ara.

Genameðferð sem líftæknifyrirtækið Sarepta Therapeutics hefur staðið fyrir í tilraunaskyni hefur vakið vonir um að hægt verði að lækna duchenne-vöðvarýrnunarsjúkdóminn í náinni framtíð. Þetta kemur fram í grein á statnews.com. „Held ég hafi sjaldan verið jafn bjartsýn og í dag,“ segir Sif Hauksdóttir, móðir tveggja ungra drengja sem greindust með Duchenne; annar fyrir tæpum fimm árum en hinn tæpum sex.

Statnews greinir frá því að genameðferð sem þrír drengir voru látnir gangast undir hafi skilað ótrúlegum niðurstöðum þegar kemur að framleiðslu prótíns sem drengir sem hafa sjúkdóminn skortir. 

„Alla mína ævi hefur mig langað til að valda straumhvörfum í sambandi við þennan sjúkdóm. Kannski hefur það loksins tekist,“ sagði Dr. Jerry Mendell hjá Nationwide barnaspítalanum í Columbus í Ohio í Bandaríkjunum, í samtali við miðilinn í gær. Í dag kynnti hann niðurstöður sínar.

Um frumniðurstöður er að ræða en eftir genameðferðina, þar sem styttri útgáfu dystrophy-prótínsins var sprautað í drengina, gat líkami drengjanna framleitt 38 prósent prótínsins. Þeir sem eru með duchenne framleiða yfirleitt lítið sem ekkert af dystrophy-prótíni. 

Fram kemur í greininni að þeir sem eru með Becker-sjúkdóminn, sem er vægari útgáfa duchenne, framleiða um og yfir 10 prósent prótínsins. Talið er að sprautan geti virkað í allt að tíu ár, samkvæmt fyrstu niðurstöðum.

Þó um frumniðurstöður sé að ræða er 38 prósent er talið vera nóg til að hindra vöðvarýrnunina eða jafnvel snúa þróuninni við - í sumum tilfellum. „Þetta er tilfinningaþrungin stund fyrir fólk á þessum vettvangi,“ sagði Mendell, sem er annar af höfundum genameðferðarinnar.

Lofar rosalega góðu

Sif rifjar á Facebook í dag upp stöðuuppfærslu sem hún skrifaði fyrir fimm árum og tíu mánuðum, þegar eldri drengurinn, fæddur 2009, greindist. „Eins og er er engin lækning til við sjúkdómnum en við erum bjartsýn á að lækning muni finnast í framtíðinni,“ skrifaði hún þá.

Lækning gæti verið í sjónmáli. „Þessi meðferð er enn þá bara á fyrstu stigum, en lofar alveg rosalega góðu. Ef þetta heldur svona vel áfram er full ástæða til bjartýni. Þetta mun væntanlega henta flestum með duchenne.“

Duchenne hefur til þessa verið ólæknandi sjúkdómur sem skerðir mjög lífsgæði og lífslíkur þeirra sem hann bera. Sjúkdómurinn er arfgengur og herjar aðeins á drengi. Þeir sem hann bera hafa ekki náð háum aldri.

Umfangsmeiri rannsókn er nú í undirbúningi, samkvæmt áðurnefndri grein. Hlutabréf í Sarepta hafa nær tvöfaldast í verði á þessu.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Alþingi

Vara­for­setar þingsins í stóla­leik

Innlent

Leið­réttir mis­skilning um út­blástur Kötlu

Alþingi

Áfengisfrumvarp lagt fram á nýjan leik

Auglýsing

Nýjast

The Chemical Brothers aflýsa tónleikum

Nota mynd­band af lík­flutningi í aug­lýsingu

Ævar vísinda­maður skaut Eddu og Jóni ref fyrir rass

Borgin eykur stuðning við Fé­lags­bú­staði

Segir VÍS ráðast á landsbyggðina

Fram­kvæmda­stjóra­skipti hjá BÍL

Auglýsing