Það verður fremur aðgerðarlítið veður í dag og á morgun, lengst af hægur vindur og skúrir á víð og dreif.

Hiti verður víða 5 til 10 stig að deginum. Á miðvikudag er svo von á næstu lægð með hvössum suðlægum áttum og fer að rigna, fyrst um landið vestanvert. Hlýna fer þó fyrir norðan og austan. Samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings er gert ráð fyrir áframhaldandi sunnan- og suðvestanáttum með vætu sunnan og vestantil á landinu.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Vaxandi sunnanátt, 13 til 20 metrar á sekúndu og rigning vestantil á landinu síðdegis. Mun hægari vindur austantil, bjart norðaustantil, en dálítil væta suðaustantil. Hiti 7 til 12 stig.

Á fimmtudag:
Suðvestan 8 til 15 og rigning eða skúrir, en úrkomulítið norðaustan til. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á föstudag:
Suðvestlæg átt, 5 til 13 metrar á sekúndu og smáskúrir, en hægari vindur og bjart austantil á landinu. Hiti 7 til 12 stig.

Á laugardag og sunnudag:
Útlit fyrir stífa suðvestanátt, vætusamt á köflum, en úrkomuminna norðaustan- og austanlands. Hiti breytist lítið.