„Við höfum ekki séð þessa mælingu síðan 1972,“ segir Benedikt Ófeigsson jarðeðlisfræðingur um sjö sentimetra landris í Öskju.

Vísindamenn telja brýnt að skoða þessar breytingar enda eru þessar hreyfingar við Öskju algjör viðsnúningur við það hefur verið í gangi í áratugi.

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi Eystra lýst yfir óvissustigi vegna landrissins en síðustu vikur hafa mælst hraðar landbreytingar, bæði á GPS-mælitæki staðsett þar og með nákvæmri úrvinnslu gervitunglamynda.

„Eftir gosið 1961 var algengasta túlkunin að kvika hafi verið að flæða út úr kvikugeymi. Það sem virðist vera að gerast núna er viðsnúningur þannig að það er flæða inn í þetta kerfi aftur inn undir Öskju. Það er fyrsta túlkunin okkar,“ segir Benedikt. Síðustu mælingar sem sýndu innflæði kviku var árið 1972 en hlé var svo gert á mælingum til ársins 1983 vegna Kröfluelda.

„En árið 1983 var landið farið að síga og hefur verið að síga síðan. Þar til nú.“

Öskjuvatn í Dyngjufjöllum í Ódáðahrauni.
Mynd/ÓMG

Landris og sig er að gerast á svipuðum slóðum og er því talið að um sé að ræða sama kvikugeyminn sem hefur síðustu áratugi misst kviku og er nú að fyllast aftur. Aðspurður segir hann ekki óalgengt að eldfjöll andi með þessum hætti.

„Þensla og sig getur staðið yfir árum saman án þess að neitt gerist. Það er erfitt að slá því föstu hvað gerist næst en ef þetta heldur áfram er líklegt að við sjáum vaxandi skjálftavirkni og fleiri merki um að eitthvað sé í gangi,“ útskýrri Benedikt.

En gætum við þá átt von á öðru eldgosi?

„Það er erfitt að spá fyrir um það. Það kemur í ljós hvort það gjósi eða stoppi bara. Það gæti verið margra ára hlé en það eru dæmi um að hraðar breytingar sem enda á gosi. En vert er að nefna að Eyjafjallajökull byrjaði og hætti í um 20 ár áður en það gaus.“

Hópur vísindamanna frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans mun leggja af stað á hálendið í næstu viku og vera þar sennilega í nokkrar vikur að vakta Öskju.