Um 1.200 skammtar af bóluefni Moderna eru væntanlegir til landsins á morgun. Þessir skammtar munu fara í að klára að bólusetja framlínustarfsmenn, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kom meðal annars fram í máli Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, á upplýsingafundi almannavarna í hádeginu.
Lyfjastofnun veitti bóluefninu frá Moderna skilyrt íslenskt markaðsleyfi þann 6. janúar síðastliðinn. Um er að ræða annað bóluefnið gegn COVID-19 sem hlýtur markaðsleyfi hérlendis, en hið fyrra var bóluefnið Comirnaty frá BioNTech/Pfizer.
Þeir einstaklingar sem verða bólusettir með fyrstu skömmtum af Moderna bóluefninu þarf að endurbólusetja eftir fjórar vikur en Þórólfur segist eiga von á 1.200 skömmtum af bóluefni frá Moderna á tveggja vikna fresti út marsmánuð. Eftir það er ekki ljóst hversu mikið eða hvenær Ísland fái fleiri skammta af bóluefninu, það komi í ljós síðar.
Auk þess er von á tæplega þrjú þúsund skömmtum af bóluefni Pfizer í næstu viku og tæplega tvö þúsund skömmtum eftir tvær vikur. Þessir skammtar verða notaðir til að bólusetja eldri íbúa landsins.
Þá mun bóluefni AstraZenica líkleglegast fá markaðsleyfi í lok mánaðarins, fái bóluefnið samþykki mun dreifingaráætlun efnisins liggja fyrir skömmu síðar.