Recep Tayyip Erdoğan, forseti Tyrklands, lofaði heiminum „góðum fréttum“ í dag í tengslum viðræður sem hann hefur staðið fyrir milli Rússa og Úkraínumanna um flutning á korni frá úkraínskum höfnum við Svartahaf. Erdoğan tilkynnti að Úkraína, Rússland, Tyrkland og Sameinuðu þjóðirnar myndu undirrita samkomulag í Istanbúl til að tryggja öruggar siglingar kaupskipa í gegnum Svartahaf með korn frá Úkraínu.

Innrás Rússa í Úkraínu hefur verið vatn á myllu matvælakreppu og verðbólgu á alþjóðavísu vegna truflana á útflutningi úkraínsks korns og hveitis um Svartahaf. Hveiti er ein helsta útflutningsvara Úkraínumanna og útilokun þeirra frá alþjóðamörkuðum hefur haft mikil áhrif á matvælaverð um allan heim.

Tyrkir hafa staðið fyrir viðræðum milli stríðsaðilanna til að tryggja öruggar flutningsleiðir úkraínskra kaupskipa frá höfnum við Svartahaf fram hjá rússneskum herskipum og úkraínskum tundurduflum. António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, er þegar kominn til Istanbúl ásamt senditeymi frá Sameinuðu þjóðunum til að skrifa undir samkomulagið. Sergei Sjojgú, varnarmálaráðherra Rússlands, er einnig viðstaddur.