Fleiri mislingatilfelli hafa ekki verið staðfest á Íslandi. Fram kemur í tilkynningu á heimasíðu embættis landlæknis að samtals hafa um 50 sýni verið send í greiningu á Landspítala og eru staðfest tilfelli enn fimm talsins. Áfram verður fylgst með stöðu mála.

Um helgina fór fram bólusetningarátak á bæði Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu vegna mislinga. Segir í tilkynningu að það hafi gengið vel. Á Austurlandi voru bólusettir um 500 einstaklingar og um 2.500 á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir einnig að von sé á meira bóluefni til landsins um miðja þessa viku. Bólusetning fyrir aðra hópa en hafa verið í forgangi verður auglýst um leið og hægt er. Í samvinnu við umdæmis- og svæðislækna sóttvarna er unnið að bólusetningaráætlun fyrir allt landið.

Sóttvarnalæknir, Þórólfur Guðnason, segir í samtali við Fréttablaðið að skoðað verði hvort hægt sé að útvíkka bólusetningarátak til annarra landshluta þegar vitað er hversu mikið bóluefni fæst í næstu sendingu.

„Á meðan að magn af bóluefni sem við fáum er takmarkað erum við að reyna að hafa bólusetninguna eins áhrifamikla og við getum. Það gerum við með því að leggja áherslu á þá staði þar sem mislingarnir hafa verið að greinast, á höfuðborgarsvæðinu og á Austurlandi. Við leggjum áherslu á þá sem hafa aldrei verið bólusettir og að þau fái að minnsta kosti eina sprautu. Þetta er hópurinn sem er í mestri áhættu og við viljum leggja áherslu á hann núna,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við Fréttablaðið í dag.

Áfram verður bólusetning í boði á Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu fyrir forgangshópa. Það eru:

Allir sem eru óbólusettir og fæddir á bilinu 1. janúar 1970 – 1. september 2018 (6 mánaða – 49 ára)
Þeir einstaklingar sem útsettir hafa verið fyrir mislingasmiti ásamt þeirra nánasta umgangshópi.

Fer eftir magni bóluefnis hvort hægt sé að útvíkka átak

Þórólfur segir að á meðan greinist ekki smit í öðrum landshlutum ætli þau að halda áfram að einblína á þessa forgangshópa. Hann segir að hann skilji að foreldrar eða fólk sem býr í öðrum landshlutum séu áhyggjufullt eða óánægt að fá ekki bólusetningu, en segist vonast til þess að hægt verði að veita þeim sömu þjónustu sem fyrst.

„Við erum að bíða eftir meira bóluefni og getum þá vonandi útvíkkað eftir því hversu mikið bóluefni við fáum. Ég veit að það er fullt af fólki sem er með allskyns spurningar og óánægt að fá ekki bólusetningu, en ástæðan er sú að ef við ættum nóg af bóluefni þá gætu allir fengið bóluefni. En það er takmarkað eins og staðan er núna,“ segir Þórólfur.

Hann segir að eftirspurnin í Evrópu eftir bóluefninu sé gríðarleg og að framleiðendur hafi ekki undan í framleiðslu.

„Það er fjöldi fólks í því að reyna að finna bóluefni handa okkur um alla Evrópu,“ segir Þórólfur.

Aðspurður hvort grunur leiki á að fleiri séu smitaðir segir hann að enn sé tíminn ekki liðinn frá því að fólkið sem smitaðist var í samneyti við aðra og því sé möguleiki á því að fleiri smit komi upp.

„Við sjáum fyrir endann á því við lok þessarar viku og vonandi verður þetta ekki meira. Ef það koma upp ný tilfelli þá eru komnir nýir snertfletir og þannig getur þetta rakið sig áfram,“ segir Þórólfur að lokum. 

Hann segir að enn sé mikið hringt  og að þau séu að reyna að beina fyrirspurnum fólks til heilsugæslunnar. Tilkynningu landlæknis og nánari upplýsingar um staðsetningu bólusetninga er að finna hér. Frekari upplýsingar varðandi mislinga eru veittar á netspjalli heilsugæslunnar og í símanúmerinu 1700.