Í nýrri veðurspá Bliku, vefs sem fjallar um veður og veðurfar, kemur fram í þriggja vikna spá að von sé á áframhaldandi hlýju víðsvegar um landið og að líklegt sé að veðrið verði áfram best á Norður- og Austurlandi.

Í færslunni sem sjá má hér fyrir neðan kemur fram að það sé sterk vísbending um að næstu dagar verði hlýrri en vanalega en von sé á kaldari dögum um miðjan mánuð.

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur sem sinnir Bliku, segir að veðrið verði áfram betra á Norður- og Austurlandi en von sé á hlýjum dögum í mánuðinum.

„Þetta er í takt við fyrri spár, að það sé skýrt merki um hlýtt veður í júlímánuði, sérstaklega á Norður- og Austurlandi. Þetta er aðeins kaflaskipt, það er inndregin sunnan- og suðaustan átt næstu tíu dagana og þegar það er í kortunum þá er yfirleitt von á góðum dögum á Norður- og Austurlandi. Síðan er von á smá bakslagi um miðjan mánuð.“