Bólusetning gegn COVID-19 hófst í gær hjá einstaklingum 81 árs og eldri en 2.348 einstaklingar voru bólusettir í Laugardalshöll í gær. Bólusetning heldur áfram í dag með bóluefni Pfizer og BioNTech.

Gert er ráð fyrir að búið verði að gefa 4.600 einstaklingum eldri en 81 árs sinn fyrsta skammt af bóluefninu fyrir lok dagsins í dag. Þá stendur til að bólusetja 4.300 starfsmenn hjúkrunar- og dvalarheimila í vikunni með bóluefni AstraZeneca en 120 einstaklingar voru bólusettir með því bóluefni í gær.

Hrósar Heilsugæslunni í hástert

Að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis hefur bólusetningin gengið mjög vel. „Ég hef ekki heyrt annað en að þetta hafi bara gengið mjög vel og það er greinilegt að Heilsugæslan er búin að undirbúa sig mjög vel og gerir þetta bara af stakri snilld,“ segir Þórólfur í samtali við Fréttablaðið um málið.

Vonir eru bundnar við að hægt verði að bólusetja einstaklinga eldri en 70 ára og framlínustarfsfólk í lok mars. Dreifingaráætlun fyrir apríl er síðan komin frá Pfizer en þeir skammtar verða notaðir á elsta aldurshópinn og einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma.

„Við erum búin að fá dreifingaráætlun frá Pfizer fyrir aprílmánuð og það er von á frá þeim um 34 þúsund skömmtum í apríl, sem er bara mjög ánægjulegt, en við erum ekki búin að fá dreifingaráætlun frá hinum framleiðendunum.“

Flestir fengið bóluefni Pfizer

Þrjú bóluefni hafa fengið skilyrt markaðsleyfi hér á landi, bóluefni Pfizer, bóluefni Moderna, og bóluefni AstraZeneca, en bóluefni AstraZeneca er aðeins notað á einstaklinga yngri en 65 ára. Þegar er búið að bólusetja einstaklinga yfir 90 ára aldri, heilbrigðisstarfsfólk á sjúkrahúsum, og einstaklinga á hjúkrunar- og dvalarheimilum.

Langflestir hafa fengið bóluefni Pfizer, tæplega 11.400 einstaklingar hafa fengið báða skammta og rúmlega 1.900 hafa fengið sinn fyrsta skammt. Tæplega 1.250 manns hafa lokið bólusetningu með bóluefni Moderna og er bólusetning hafin hjá rúmlega 1.400 einstaklingum til viðbótar. Þá hafa rúmlega 5.200 fengið sinn fyrsta skammt af bóluefni AstraZeneca.

Líkt og áður segir hófst bólusetning fyrir einstaklinga 81 árs og eldri í gær en ljósmyndari Fréttablaðsins var á staðnum og smellti af nokkrum myndum sem finna má hér fyrir neðan.

Nóg var um að vera í Laugardalshöll í gær.
Fréttablaðið/Valgarður
Tæplega 2,4 þúsund einstaklingar yfir 81 árs aldri voru bólusettir.
Fréttablaðið/Valgarður
Fréttablaðið/Valgarður
Fréttablaðið/Valgarður
Fréttablaðið/Valgarður
Fréttablaðið/Valgarður
Fréttablaðið/Valgarður
Fréttablaðið/Valgarður
Fréttablaðið/Valgarður
Fréttablaðið/Valgarður
Fréttablaðið/Valgarður
Fréttablaðið/Valgarður