Forsvarsmenn Volvo segja að framtíð fyrirtækisins liggi í framleiðslu rafmagnsbíla, en til þess þarf ógn og býsn af rafhlöðum. Til að tryggja það að Volvo geti framleitt það magn rafmagnsbíla sem áformað er hefur fyrirtækið nú samið við LG Chem og Contemporary Amperex Technology Co Ltd (CATL) um kaup á rafhlöðum fyrir nokkra milljarða dollara, eða nokkur hundruð milljarða króna. Ekki liggur ljóst fyrir hver nákvæm tala er, en víst er að samningurinn hleypur á ógnvænlegum upphæðum.

Bílaframleiðendur þurfa einmitt að tryggja nokkuð inní framtíðina að íhlutir eins og rafhlöður verði til staðar þegar bílar þeirra eru fjöldaframleiddir og það í býsna miklu magni. Volvo stefnir að því að helmingur framleiðslu fyrirtækisins verði rafmagnsbílar árið 2025, eða eftir 6 ár. Svo virðist sem flestir evrópskir bílaframleiðendur kaupi rafhlöður sínar í Kína, S-Kóreu eða Japan, en þar er að finna stærstu framleiðendur heims á rafhlöðum fyrir bíla.