Bíllinn verðu r smíðaðu r í Zwickau í Þýskalandi en þar eru ID.3 og ID.4 einnig smíðaðir. „Við fáum fyrsta bílinn vonandi ef allt gengur upp í janúar, síðan til afhendingar mánaðamótin febrúar-mars,“ segir Jóhann Ingi Magnússon, vörumerkjastjóri hjá Heklu. „Verðlistinn er í vinnslu og fljótlega förum við að taka við pöntunum,“ sagði Jóhann og bætti við að verð bílsins yrði klárt á næstu vikum. Þar sem ID.5 er með minni loftmótstöðu en ID.4 er drægi hans ívið meiri, eða 520 km, en aðeins munar örlitlu. Hægt verður að velja um þrjá rafmótora, grunngerðin verður með 172 hestafla mótor fyrir afturhjól, en einnig er hægt að fá 201 hestafla mótor við afturdrifið líka.

GTX útgáfan fær rafmótor við framdrifið líka svo að aflið fer í 295 hestöfl, en drægið fer líka niður í 490 km. Viðbragðið er þó mun betra eða 6,3 sekúndur í hundraðið. Bílarnir verða með sömu innréttingu og ID.4 sem er sex tommu skjár í mælaborði ásamt 12 tommu skjá í miðjustokki. Farangursrými er líka sex lítrum meira en í ID.4 og fer í 549 lítra. Að lokum kemur hann með nýrri uppfærslu hugbúnaðar sem meðal annars leyfir hraðhleðslu allt að 135 kW í stað 120 kW áður í ID.4. Verður þá hægt að hlaða bílinn í 80% hleðslu á 26 mínútum.