Volkswagen AG áætlar að byggja nýja verksmiðju fyrir tilvonandi flaggskip sitt í nágrenni Wolfsburg. Trinity rafbíllinn fer að öllum líkindum á markað árið 2026 og mun hann keppa við Tesla, og þá einnig í framleiðsluferlinu.

Hefur markið verið sett á að aðeins taki 10 klukkustundir að framleiða bílinn sem framleiddur verður í 250.000 eintökum á ári.

Trinity verður fyrsti bíll Volkswagen sem byggður verður á nýjum SSP sem er skalanlegur og mun fjölhæfari en MEB undirvagninn sem nú er í notkun.

Til að gera þetta mögulegt telur Volkswagen að byggja þurfi nýja risaverksmiðju sem einblínir á framleiðslu Trinity-bílsins. Mun það vera ódýrara en að breyta núverandi verksmiðju sem framleitt getur 500.000 bíla á ári.

Er þetta því hreint viðbót við framleiðslugetu Volkswagen. Stjórn Volkswagen á þó eftir að taka endanlega ákvörðun en fjármögnun hennar er tilbúin. Búast má við endanlegri ákvörðun í næsta mánuði frá Volkswagen en telja má afar líklegt að af þessum framkvæmdum verði.

Risaverksmiðja Tesla fyrir utan Berlín mun geta framleitt allt að 500.000 bíla á ári.