Paul-Henri Sandaogo Damiba, leiðtoga herforingjastjórnarinnar í Búrkína Fasó, hefur verið steypt af stóli. Ibrahim Traoré, kapteinn í búrkínska hernum, leysti hann úr embætti í dag, leysti upp ríkisstjórnina og nam stjórnarskrá landsins tímabundið úr gildi.

Traoré tilkynnti um valdaránið í sjónavarpsávarpi á stöðinni Radiodiffusion-Télévision í dag. Tilkynningin kom í kjölfar vopnaðra átaka í höfuðborginni Ouagadougou.

„Hættulegar ákvarðanir Damiba undirofursta hafa smám saman grafið undan öryggiskerfi okkar,“ sagði einn valdaránsmannanna í sjónvarpinu. „Skriffinskan sem einkenndi fyrri stjórnina hafði ágerst á aðlögunartímabilinu og þannig stofnað hernaðaraðgerðum okkar í hættu.“

Damiba komst sjálfur til valda í janúar síðastliðinn eftir að hann leiddi herforingjabyltingu gegn forsetanum Roch Marc Christian Kaboré. Þetta er því annað valdarán ársins 2022 í Búrkína Fasó. Valdaránið gegn Kaboré naut nokkuð víðtæks stuðnings almennings, einkum vegna óánægju með slakan árangur stjórnar hans í baráttu gegn vopnuðum sveitum íslamista. Damiba lofaði að gera öryggismál að helsta forgangsmáli sínu sem leiðtogi landsins.

Nú vísar Traoré hins vegar til þess að Damiba hafi mistekist að bæta úr ástandinu til að réttlæta eigin uppreisn gegn stjórn hans. Traoré og menn hans hafa komið á útgöngubanni og hafa lokað landamærum Búrkína Fasó.