Í­búar Akra­ness vöknuðu við sement­þakinn bæ í morgun eftir að sement gaus úr einum sement­stankanna við höfnina í nótt. Verið var að dæla sementi í tankinn í nótt þegar hann yfir­fylltist og sementið þakti bæinn.

„Ég á­ætla að þetta hafi verið ein­hvers staðar á bilinu 200 kíló til tvö tönn sem sluppu,“ segir Gunnar H. Sigurðs­son, fram­kvæmda­stjóri Sements­verk­smiðjunnar. Það sé erfitt að meta magnið þar sem at­vikið átti sér stað í kol­niða­myrkri klukkan fimm í nótt.

„Það átti að vera pláss fyrir allt sementið í geimnum svo þetta getur ekki hafa verið mikið,“ í­trekar Gunnar. „Þetta er svo létt efni að þetta svífur í loftinu eins og hveiti og dreifist eftir vind­áttinni í hundruð metra.“

Hreinsunarstörf taki allan daginn

Slökkvi­lið Akra­ness hóf hreinsunar­störf klukkan tíu í morgun og hefur staðið í ströngu við að þrífa hús, götur og bíla síðan. „Við erum búnir að þrífa það sem er næst verk­smiðjunni og þar sem mest sement hafði lagst á,“ segir Jens Heiðar Ragnars­son, slökkvi­liðs­stjóri. Mána­gata var einna verst leikin eftir sements­gosið og var henni lokað í nokkra klukku­tíma á meðan hreinsunar­störf fóru fram.

Á­gæt­lega gengur að skola sementinu af að sögn Jens en það komi ekki strax í ljós hvort ein­hver hús þurfi meiri þvott.

Að beiðni Veitna var niður­föllum lokað á tíunda tímanum þannig að sements­blandað vatn færi ekki í niður­föllin. Ekki megi hleypa þess slags eitri í lagnirnar. „Við erum með bíl sem er að dæla vatninu upp og það mun taka nokkra tíma til við­bótar að klára það verk,“ segir Jens.

Bíll Hlédísar var þakin sementi þegar hún vaknaði í morgun.

Merkilega erfitt að ná efninu af

Fjöl­miðla­maðurinn Hlé­dís Sveins­dóttir birti mynd af sements­þöktum bíl sínum með yfir­skriftinni „Hvaða steypa er þetta?“ í morgun. Hún brá til ýmissa ráða til að hreinsa sementið af en hafði ekki erindi sem erfiði.

„Ég fór með bílinn í gegnum snerti­lausna þvotta­stöð og hafði það lítið að segja,“ segir Hlé­dís. „Síðan safnaði ég saman öllum hundrað köllum sem ég fann og er búin að hjakkast á kagganum með há­þrýsti­dælu en þetta er merki­lega fast.“

Hlé­dís kvaðst þó hafa verið heppin að lokað hafi verið fyrir þrif með kústum á bensín­stöðvum bæjarins. „Hefði það verið opið hefði ég rispað allan bílinn, þetta er svona leiðin­legra efni en margt annað.“

Óþægileg tilhugsun

Það hafi ekki verið góð til­hugsun að hjónin hafi andað efninu inn í nótt þar sem glugginn á svefn­her­berginu var opinn. Það hafi verið gleði­efni að sjá slökkvi­liðið að störfum við þrif í bænum.

„Það mikil­vægasta er auð­vitað að þetta liggi ekki út um allt, í gróðrinum og snjónum þar sem börnin okkar eru að velta sér,“ í­trekar Hlé­dís. „Mér finnst ó­þægi­leg til­hugsun að þetta liggi í snjónum, eig­andi dóttur sem er snjó­sjúk.“

Hlé­dís tók sér­stak­lega fram að hún væri viss um að Skaginn myndi bregðast vel við ó­happinu. Slökkvi­liðið stefnir að því að vera búin að hreinsa mest allan bæinn þegar líður á daginn en tíu menn munu vera í hreinsunar­verk­efnum næstu klukku­tímana.

Þá sagði Gunnar að sements­verk­smiðjan væri í sam­starfi við tvö fyrir­tæki sem væru nú að þrífa alla bíla bæjarins. Gunnar hvatti íbúa ein­dregið til að hafa sam­band við sig þannig hann gæti vísað þeim á réttan stað.

Engar til­kynningar um tjón hafa enn borist lög­reglunni en Jens segir ó­víst að hægt verði að meta slíkt fyrr en eftir að hreinsunar­að­gerðum ljúki.

Hlédís lenti ekki eins illa í sementinu og hús og bílar sem eru nær verksmiðjunni.