Opinber rannsókn verður gerð á starfsemi vöggustofa á síðustu öld, Viðar Eggertsson sem dvaldi á vöggustofu, segir ekki síður mikilvægt að skoða afdrif barnanna sjálfra.

Borgarráð samþykkti í gær að skipa nefnd óháðra sérfræðinga til að gera heildstæða athugun á starfsemi vöggustofa í Reykjavík á síðustu öld.

Í bókun borgarráðs og áheyrnarfulltrúa kemur fram að fullt tilefni sé til að taka út starfsemi vöggustofanna í ljósi þeirra upplýsinga sem komið hafa fram um slæma meðferð á börnum er vistuð voru þar.

Rannsóknin verður unnin í samráði við forsætisráðuneytið sem mun útvega nauðsynlegar lagaheimildir fyrir vinnu nefndarinnar. Nefndin getur ekki formlega hafið störf fyrr en málið fer í gegnum Alþingi en ýmis forvinna mun hefjast þegar í stað.

„Við teljum okkur geta hafið störf í því að forma nefndina og manna hana, hún getur byrjað að undirbúa sig, þannig að þegar lagaheimildir og allt það er klárt þá sé bara hægt að byrja,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs.

Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins, Vigdís Hauksdóttir, gagnrýndi borgina fyrir að hafa enn ekki náð að verða sér úti um áðurnefndar lagaheimildir og borgarstjóri er sakaður um biðleik.

„Það er ekki bara ljótt heldur líka skammarlegt því slíkt hefur í för með sér frekari þjáningar málsaðila. Skorað er á borgarstjóra að eiga samtal við forsætisráðherra,“ segir í bókun Vigdísar.

Raunar hafa borgaryfirvöld þegar fundað með forsætisráðuneytinu en áður var haft eftir Þorsteini Gunnarssyni borgarritara að mikill vilji væri hjá bæði ríki og borg til að vinna málið eins hratt og vel og hægt er.

Viðar Eggertsson, sem vistaður var á vöggustofu á unga aldri, er einn fimmmenninganna sem fóru á fund borgarstjóra síðasta sumar og fóru fram á rannsókn á málinu.

„Í dag er dagur Sigurjóns Björnssonar sálfræðings,“ segir Viðar og vísar þar til borgarfulltrúans sem sem var fyrstur til að minnast opinberlega á vankanta vöggustofunnar og lagði til rannsókn á starfseminni. Það gerði hann 1967.

Þá segist Viðar vænta mikils frá rannsóknarnefndinni og tekur fram að hann muni „anda ofan í hálsmálið á henni“.

Þá leggur Viðar áherslu á að sjálf vöggustofan verði ekki bara rannsökuð, heldur afdrif barnanna sem dvöldu á henni.

„Það er gríðarlega mikilvægt,“ segir Viðar og veltir fyrir sér hvaða veganesti þetta fólk hafi tekið með sér út í lífið eftir meðferðina á stofunni. ■