Tillaga um skipun rannsóknarnefndar um vöggustofumálið verður lögð fyrir borgarráð í næstu eða þarnæstu viku. Þorsteinn Gunnarsson, borgarritari staðfestir þetta.
„Við erum í samtali við forsætisráðuneytið og reiknum með að tillaga um rannsóknarnefnd af hálfu borgarinnar fari inn í borgarráð í næstu eða þarnæstu viku,“ segir Þorsteinn í samtali við Fréttablaðið.
Eins og áður hefur komið fram hyggst Reykjavíkurborg setja af stað sjálfstæða rannsókn á starfsemi vöggustofa sem reknar voru af borginni um miðja síðustu öld.
Nefndin fær fjármagn úr borgarsjóði en mun njóta stuðnings ríkisstjórnarinnar við að fá lagaheimildir þegar kemur að rannsókninni er snúa að persónuvernd, upplýsingagjöf og stjórnsýslulögum. Ef kemur í ljós að greiða þurfi fólki bætur mun það þó verða tæklað síðar, segir Þorsteinn.
Frumvarp er varðar aðkomu ríkisins verður lagt fyrir Alþingi á næstu misserum en Þorsteinn segir þó ekkert því til fyrirstöðu að skipa rannsóknarnefnd og hefja undirbúning rannsóknarinnar fyrir þann tíma, enda sé að mörgu að huga.
Borgaryfirvöld funduðu með forsætisráðuneytinu í morgun og segir Þorsteinn skýran vilja hjá ráðuneytinu til að greiða götu rannsóknarinnar og býst við því að frumvarpið fari greiðlega í gegnum þingið.
„Enda er mikill vilji hjá báðum aðilum að vinna þetta eins og hratt og vel og hægt er,“ segir hann.