Til­laga um skipun rann­sóknar­nefndar um vöggu­stofu­málið verður lögð fyrir borgar­ráð í næstu eða þar­næstu viku. Þor­steinn Gunnars­son, borgar­ritari stað­festir þetta.

„Við erum í sam­tali við for­sætis­ráðu­neytið og reiknum með að til­laga um rann­sóknar­nefnd af hálfu borgarinnar fari inn í borgar­ráð í næstu eða þar­næstu viku,“ segir Þor­steinn í sam­tali við Frétta­blaðið.

Eins og áður hefur komið fram hyggst Reykja­víkur­borg setja af stað sjálf­stæða rann­sókn á starf­semi vöggu­stofa sem reknar voru af borginni um miðja síðustu öld.

Nefndin fær fjár­magn úr borgar­sjóði en mun njóta stuðnings ríkis­stjórnarinnar við að fá laga­heimildir þegar kemur að rann­­sókninni er snúa að per­­sónu­vernd, upp­­­lýsinga­­gjöf og stjórn­sýslu­lögum. Ef kemur í ljós að greiða þurfi fólki bætur mun það þó verða tæklað síðar, segir Þor­steinn.

Frum­varp er varðar að­komu ríkisins verður lagt fyrir Al­þingi á næstu misserum en Þor­steinn segir þó ekkert því til fyrir­stöðu að skipa rann­sóknar­nefnd og hefja undir­búning rann­sóknarinnar fyrir þann tíma, enda sé að mörgu að huga.

Borgar­yfir­völd funduðu með for­sætis­ráðu­neytinu í morgun og segir Þor­steinn skýran vilja hjá ráðu­neytinu til að greiða götu rann­sóknarinnar og býst við því að frum­varpið fari greið­lega í gegnum þingið.

„Enda er mikill vilji hjá báðum aðilum að vinna þetta eins og hratt og vel og hægt er,“ segir hann.