Rann­sókn á starf­semi Vöggu­stofunnar að Hlíðar­enda og Vöggu­stofu Thor­vald­sens­fé­lagsins getur ekki hafist fyrr en eftir Al­þingis­kosningar.

Árni H. Kristjáns­son, sagn­fræðingur og einn fimm­menninganna sem skoruðu á borgar­stjórn að rann­saka mál vöggu­stofa, segir að málið varði per­sónu­vernd og þurfi því að­komu Al­þingis. Ef björtustu spár gangi eftir geti rann­sókn hafist í októ­ber.

Fimm­menningarnir munu funda með borgar­lög­manni á mánu­daginn næst­komandi. Þar verður farið yfir rann­sóknina og af­mörkun á henni.

„Við vorum að miða við rann­sókn til 1973 þegar Vöggu­stofa Thor­vald­sens­fé­lagsins hætti starf­semi en nú er að koma í ljós að börn voru vistuð á vöggu­stofum lengur á vegum Reykja­víkur­borgar. Lík­lega verður rann­sóknin víkkuð eitt­hvað í árum,“ segir Árni.

Þá vilji þeir einnig láta rann­saka af­drif þessara barna. „Við höfum þegar vit­neskju um það að fjöl­margir eigi erfitt með að fóta sig í lífinu, sjálfs­víg séu tíð sem og ó­regla.“

Vegferðin í leit að réttlæti fyrir börn vöggustofanna hófst formlega þegar fimmmenningarnir, þeir Árni, Fjölnir Geir Braga­son, Hrafn Jökuls­son, Tómas V. Alberts­son og Viðar Eggerts­son, gengu á fund borgar­stjóra þann 7. júlí síðast­liðinn.

Mennirnir fimm eiga það allir sameiginlegt að hafa verið vistaðir á vöggustofum sem börn. Þeir segja að vistunin hafi valdið bæði þeim og fjölskyldum þeirra skaða.

Þann 22. júlí síðastliðinn samþykkti borgarráð að leita til forsætisráðuneytisins til að gera almenna og heildstæða athugun á starfsemi vöggustofanna. Þá lagði borgarstjórn til að sérstakri nefnd yrði falið að gera úttekt á starfsemi þeirra.

Hrafn Jökulsson, rithöfundur og einn fimmmenninganna, segist bjartsýnn á að borgin rannsaki málið af fullum krafti og heilindum. Málið snerti marga, „það skiptir mestu máli að rannsóknin verði mjög vönduð og það verði velt við mörgum steinum.“ Hann gruni að margt eigi eftir að koma í ljós og mikilvægt sé að lærdómur verði dreginn af málinu.

Fræðslufundur um vöggustofumálið verður haldinn að Aflagranda 40 í dag, 23. september, klukkan 20. Fundurinn er ætlaður þeim sem vistuð voru á vöggustofum, ástvinum þeirra og áhugafólki um velferð barna. Gestir eru hvattir til að mæta tímanlega að því er fram kemur í tilkynningu frá Hrafni.